Óánægja í Reykjahverfi með skólastefnu Norðurþings

0
133

Nokkur kurr er komin upp hjá fólki í Reykjahverfi vegna skólamála, en sveitarfélagið Norðurþing hefur selt hlut sinn í Hafralækjarskóla og virðast ákveðnar breytingar vera í farvatninu. Á síðastliðnu hausti var leikskólabörnum úr Reykjahverfi beint til Húsavíkur og neitaði sveitarfélagið að niðurgreiða leikskólavist barna sem sóttu leikskóla í Aðaldal.  Þá fóru sum börn í Reykjahverfi til Húsavíkur í framhaldi af þessari beiðni, en ábúendur á einum bæ óskuðu eftir aðlögun til áramóta og var barn þeirra þá í leikskóla á Hafralæk á haustdögum og fram að jólum.

Leikskólinn Barnaborg í Aðaldal
Leikskólinn Barnaborg í Aðaldal

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Núna eftir áramót fengu þessir sömu aðilar algera neitun á niðurgreiðslu leikskólagjalds af hálfu Norðurþings nema að barnið væri sent til Húsavíkur.  Fyrir því var ekki vilji á heimilinu og hefur fólkið nú orðið að taka barn sitt úr leikskólanum í Aðaldal eftir eins og hálfs árs vist þar. Út af þessu hefur spunnist óánægja enda 40 ára hefð fyrir þátttöku Reykhverfinga í skólahaldi á Hafralæk og mikil vilji er til þess að börnin séu í sínum sveitaskóla eins og verið hefur.

Það sem vekur athygli er að bæjarstjórn hefur ekki haldið opinn fund með íbúum sveitarinnar til þess að kynna þessar breytingar og er þá átt við söluna á Hafralækjarskóla og þjónustusamning við sama skóla sem gildir aðeins til ársins 2015. Nokkrir íbúar hafa sagt það ákveðna lítilsvirðingu við fólkið að tala ekki við það fyrirfram um þetta á opnum fundi, en þetta varðar alla íbúa, ekki bara foreldra einstakra leikskólabarna.

Mikil ánægja var á sínum tíma með stofnun Hafralækjarskóla og hafa Reykhverfingar sem þar hafa verið átt sinn hlut í styrkleika skólans sem kjarna byggðarinnar. Það er þess vegna mikið rask ef kippa á fólki út úr skólasamfélagi sem hefur verið í samfleytt í 40 ár og því hafa nokkrir íbúar farið fram á opinn fund um málið með bæjarstjórn Norðurþings sem virðist hafa tekið hafa þessa pólitísku ákvörðun.

Texti: Atli Vigfússon