Nýr pistill frá sveitarstjóra Skútustaðahrepps

0
138

Þorsteinn Gunnarsson sveitarstjóri Skútustaðahrepps hefur skrifað annan pistil um gang mála í Skútustaðahreppi, sem lesa má á vef Skútustaðahrepps. 641.is birtir hann hér með í heild sinni.

Síðustu tvær vikur hafa verið viðburðaríkar. Stærsta verkefnið sem snýr að sveitarfélaginu er gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár sem lögð var til fyrri umræðu í sveitarstjórn í morgun. Hefur verið upplýsandi fyrir mig að fara í gegnum þá vinnu með starfsfólki sveitarfélagsins og gefið góða innsýn inn í starfsumhverfið og reksturinn. Fundað hefur verið með forstöðumönnum og endurskoðanda. Þær aðhaldsaðgerðir sem ráðist hefur verið í undanfarin misseri eru farnar að skila sér í rekstrinum.

Ljóst er að tekjur hafa jafnframt verið að aukast umfram áætlanir og reksturinn hefur verið að styrkjast þótt hann sé enn viðkvæmur. Hins vegar er undirliggjandi fjárþörf þegar kemur að viðhaldi á fasteignum sveitarfélagsins. Þá náðist ekki að fara í allar þær framkvæmdir í ár sem áætlað var og flyst því þunginn yfir á næsta ár. Þar má nefna frágang á nýju gámaplani og gatnagerðaframkvæmdir í Klappahrauni að hluta. Eftir á að forgangsraða viðhaldi og öðrum framkvæmdum fyrir næsta ár. Seinni umræða um fjárhagsáætlun verður 14. desember n.k. og þá verður einnig lögð fram gjaldskrá. Verður nánar sagt frá fjárhagsáætluninni eftir seinni umræðu sveitarstjórnar.

Snjómokstur
Ótrúlega fallegt er um að litast í Mývatnssveit þessa dagana eftir að það fór að snjóa. Fylgifiskur þess er snjómokstur og hefur hann gengið vel. Rétt er að árétta að nýjar snjómokstursreglur voru samþykktar í upphafi þessa árs en þær má finna á heimasíðu sveitarfélagsins Tengliður sveitarfélagsins vegna snjómoksturs og hálkuvarna er Lárus Björnsson í síma 8624163 eða á netfangið larus@myv.is.

Leikskólinn Ylur 40 ára
Leikskólinn Ylur fagnaði 40 ára afmæli 2. nóvember síðastliðinn. Boðið var til veislu af því tilefni. Í tilefni dagsins færðu tvennir foreldrar leikskólanum gjafir, málörvunarbók og smáforrit til aukningar orðaforða. Kunnum við foreldrunum bestu þakkir fyrir höfðinglega gjöf. Því miður hefur vinna við girðingu á nýrri leikskólalóð dregist úr hófi en ákveðið var að klára þá vinnu í haust og bæta við áfanga 2 og 3. Vonast er til að hægt verði að ljúka við hana á næstunni ef veður leyfir. Foreldrafélag leikskólans aðstoðaði við að tyrfa nýja hólinn á leikskólalóðinni eins og sjá má á myndunum sem Davíð Örvar Hansson tók. Fram kom á fundi skólanefndar þakklæti til foreldra sem unnið hafa í sjálfboðavinnu við framkvæmdir á leikskólalóð og tekur sveitarstjórn heilshugar undir.

Ásókn í tónlistarnám
Í haust var samið við Tónlistarskóla Húsavíkur um tónlistarkennslu í Reykjahlíðarskóla. Alls eru 19 nemendur í tónlistarskólanum, eingöngu nemendur grunnskólans. Eftirspurn er eftir meiri kennslu, bæði til grunnskólabarna, leikskólabarna og fullorðinna og er verið að skoða það. Einir tónleikar hafa verið haldnir og aðrir á dagskrá fyrir áramót. Í skoðun er aðkoma tónlistarkennara að starfi í leikskóla þá daga sem skólastarf í grunnskóla er óhefðbundið.

Nýtt Gámastæði tekið í notkun
Eins og Mývetningum er eflaust kunnugt um hefur verið unnið að því að endurskipuleggja sorpmál í Skútustaðahreppi í ár. Höfum við verið samstíga Þingeyjasveit í því ferli. Sorphirðukerfið var barn síns tíma. Til að bregðast við kostnaðarsömu kerfi og til að uppfylla nútímakröfur ásamt óskum íbúa um aukna flokkun, var gerður þróunarsamningur við Gámaþjónustu Norðurlands sem þjónustuaðila. Markmið þess samnings er að þróa hagkvæma og skilvirka lausn. Því miður hefur orðið seinkun á byggingu nýja gámastæðisins af ýmsum ástæðum en nýlega var lokið við fyrsta áfanga. Í samráði við landeigendur á Grímsstöðum og Gámaþjónustuna verður gámastæðið tekið í notkun á næstunni, líklega í kringum næstu mánaðarmót, til þess að fá reynslu á það í vetur. Næsta sumar er svo ráðgert að endurskoða staðsetninguna og vonandi fara í seinni áfangann sem er að steypa og girða svæðið. Sendar verða út nánari leiðbeiningar til íbúa þegar gámastæðið er tilbúið til notkunar um leið og gamla gámasvæðinu verður lokað. Rétt er að ítreka að hér er um þróunarverkefni að ræða og í þessari vegferð er að mörgu að hyggja og ýmis sjónarmið á lofti sem taka þarf tillit til. Markmiðið er að veita íbúum og gestum öllum góða þjónustu sem samræmist lögbundnum skyldum sveitarfélagsins. Jafnframt að kostnaður falli á þá sem til hans stofna og gjaldtaka endurspegli kostnað við þjónustustig

Umhverfisverðlaun
Umhverfisnefnd hefur ákveðið að stofna til árlegra umhverfisverðlauna. Sveitarstjórn samþykkti tillögu nefndarinnar að veitt verði umhverfisverðlaun fyrir þetta ár og að nefndin útfæri síðan fyrirkomulag verðlaunanna til næstu ára og að þau verði svo veitt á Slægjufundi ár hvert. Þá samþykkti sveitarstjórn að veita umhverfisnefnd heimild til að endurskoða Umhverfisstefnu Skútustaðahrepps og leggja tillögu fyrir sveitarstjórn í síðasta lagi 1. maí n.k.

Sólveigu þökkuð góð störf
Sólveig Erla Hinriksdóttir skrifstofufulltrúi hefur sagt upp störfum á skrifstofu Skútustaðahrepps. Sveitarstjórn þakkar Sólveigu Erlu fyrir gott samstarf og góð og farsæl störf á skrifstofu Skútustaðahrepps í hartnær tvo áratugi og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Tónleikar Tónlistarskóla Mývatnssveitar verða haldnir miðvikudaginn 30. nóvember kl. 18:00 í Reykjahlíðarskóla. Allir velkomnir.

Kveikt á jólatrénu
Kveikt verður á jólatrénu við Reykjahlíðarskóla mánudaginn 28. nóvember kl. 10:00. Á eftir verður boðið upp á piparkökur og kakó. Allir velkomnir.

Skýrsla um Hofstaði
Umhverfis- og auðlindaráðherra kynnti í október í ríkisstjórn skýrslu starfshóps sem hafði það verkefni að greina möguleika og vinna tillögur að hugsanlegri uppbyggingu og skipulagi að Hofstöðum í Mývatnssveit. Ríkisstjórnin samþykkti að halda jörðinni í eigu ríkisins á meðan skoðaður verði nánar kostnaður við þá uppbygginu sem lögð er til í skýrslunni. Þeir sem vilja kynna sér skýrsluna geta séð hana á heimasíðu ráðuneytisins og Skútustaðahrepps.

Ýmis verkefni
Sveitarstjóri hefur auk þessa unnið að ýmsum verkefnum og sótt fundi frá síðasta sveitarstjórnarfundi. Meðal annars er búið að koma upp reglulegum fundum með forstöðumönnum. Fundað hefur verið með endurskoðanda sveitarfélagsins, Gámaþjónustu og landeigendum á Grímsstöðum, fulltrúum Securitas o.fl. Þá hef ég sótt vinnufund Samtaka orkusveitarfélaga, fundað með fulltrúum EIMS sem er samstarfsverkefni á sviði orku-, umhverfis- og ferðamála á Norð- Austurlandi, fundað með formanni Mývatnsstofu og tekið þátt í vinnustofu um fræðsluáætlun Vatnajökulsþjóðgarðs, svo eitthvað sé nefnt. Hér er stiklað á stóru.

Ég vil ítreka þakkir fyrir góðar móttökur síðan ég kom í Mývatnssveit. Ætlunin er að pistill sveitarstjóra birtist tvisvar í mánuði, í kjölfar sveitarstjórnarfunda. Fékk fyrsti pistillinn góðar móttökur!

Þorsteinn Gunnarsson