Nýr pistill frá sveitarstjóra Skútustaðahrepps

0
778

Er ekki rétt að byrja á jákvæðum fréttum! Það fjölgar í Skútustaðahreppi.  Íbúar Skútustaðahrepps þann 1. desember 2016 samkvæmt nýju eintaki af árlegri íbúaskrá sveitarfélaga frá Hagstofu Íslands eru 432 talsins sem er aukning um 5,9% (úr 408) frá 2015. Fjölgun íbúa síðan 2013 er um 14,3% (úr 378). Karlar 18 ára og eldri eru 178. Konur 18 ára og eldri eru 179. Börn 17 ára og yngri eru 75. Erlendir ríkisborgarar eru 65. Vonandi á eftir að fjölga enn í ljósi þess að hér er verið að byggja ný hús og ungt fólk flytur heim í Mývatnssveit sem aldrei fyrr.

Af fráveitumálum
Síðustu tvö kvöld var Kastljósi með samantekt og umræður um frárennslismál við náttúruperluna Mývatn. Þótt ákveðinnar ónákvæmni hafi gætt í nokkrum atriðum undirstrikar þessi umfjöllun enn og aftur hversu mikilvægt er að stofnanir og ráðamenn þjóðarinnar taki umræðuna um fráveitumálin alvarlega  eins og sveitarstjórn Skútustaðahrepps hefur barist fyrir undanfarin misseri. Rétt er að taka fram að ekki er verið að veita skólpi út í Mývatn eins og stundum má skilja af umræðunni, það er rotþróarkerfi alls staðar og engin fráveita af skólpi úti í vatnið. En þetta er risavaxið samfélagslegt verkefni þar sem jafnframt þarf að auka vöktun og rannsóknir á svæðinu.  Umhverfisráðuneytið hefur nú þegar látið gera þrjár skýrslur um frárennslismál við Mývatn á rúmu ári í kjölfar þess að Skútustaðahreppur lét vinna frárennslisskýrslu um Reykjahlíð. Umhverfisstofnun hefur í samvinnu við Samband Íslenskra sveitarfélaga og Samorku útbúið greiningaraðferð til að gefa skýrari mynd af áskorunum sveitarfélaga, sem ekki losa skólp til sjávar, með hliðsjón af sértæku álagi, vernd og kröfum. Einkunnagjöfinni er ætlað að beina ljósinu að stöðum þar sem þörf á úrbótum er brýnust. Þar skorar svæðið í kringum Mývatn langhæst sem segir ansi mikið um sérstöðu svæðisins. Í verndarlögunum stendur að þau eigi að „tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins verði ekki stefnt í hættu af mannavöldum.“ Flokkast frárennslismál ekki þar undir?  Jafnframt stendur að „kostnaður við framkvæmd laga þessara greiðist úr ríkissjóði eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum“.  Sveitarfélagið mun ekki skorast undan sinni ábyrgð og hefur beitt stjórnvöld miklum þrýstingi til að koma að borðinu eins og þeim ber að gera. Vonandi gengur það eftir svo hægt sé að ráðast í þetta verkefni svo lífríkið í Mývatni njóti vafans.

Skýrsla um frárennslismál – heimsókn frá þingmönnum kjördæmisins
Á fundi sveitarstjórnar í gær var lögð fram skýrsla umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um „Fráveitumál við Mývatn – Úttekt á núverandi stöðu og tillögur að úrbótum í ljósi ofauðgunar.” Ljóst er að fráveitur í Skútustaðahreppi standast ekki strangar kröfur til hreinsunar fráveituvatns sem fram koma í reglugerðum um verndun Mývatns og Laxár og um fráveitur og skólp. Þessar kröfur taka meðal annars til hreinsunar á næringarefnum sem geta valdið ofauðgun í viðkvæmum viðtökum á borð við Mývatn. Stofnkostnaður við innleiðingu aukinnar skólphreinsunar í Reykjahlíð, í Vogum og á Skútustöðum, svo ákvæði reglugerða um verndun Mývatns og Laxár og um fráveitur og skólp verði uppfyllt getur að mati höfunda legið á bilinu frá 500 milljónum til 700 milljóna. Rekstrarkostnaður nýrra fráveitumannvirkja á þessum stöðum er talin geta legið á bilinu frá 10 milljónum til 15 milljóna. Til viðbótar við þessa staði, þar sem vísir er af þéttbýli, er rekin umfangsmikil ferðaþjónusta á nokkrum stöðum í grennd við vatnið. Dæmi eru um að rekstraraðilar hafi komið upp skólphreinsistöðvum á eigin kostnað á þessum stöðum, en telja höfundar að kostnaður við slíkar stöðvar nemi tugum milljóna á hverjum stað. Sveitarstjórn átti upplýsandi fund með þingmönnum Norðausturkjördæmis í síðustu viku þar sem skýrslan var kynnt. Þar ítrekaði sveitarstjórn bókun sína frá síðasta sveitarstjórnarfundi að hún leggur áherslu á aðkomu ríkisins að málinu í samræmi við 9. grein laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Flygillinn í Skjólbrekku lagfærður
Eins og komið hefur fram hefur sveitarstjórn ákveðið að slíta sjóðnum  Skútu í Mývatnssveit. Sveitarstjórn hefur lagt til og samþykkt á fundi sínum 24. janúar s.l. að eignum hans verði ráðstafað til góðs málefnis í anda sjóðsins. Félags- og menningarmálanefnd sveitarfélagsins lagði til að eigu sjóðsins verði ráðstafað í að laga ytra byrði flygilsins í Skjólbrekku og smíða hirslu utan um hann. Afgangur upphæðarinnar renni í sjóð sem verður notaður til stuðnings átthagatengdum viðburðum í Mývatnssveit með áherslu á menningarlegar rætur og verði settar reglur um þann stuðning af félags- og menningarmálanefnd. Sveitarstjórn samþykkti samhljóða tillögu nefndarinnar.

Fjölmennir Mývetningar
Ég sótti aðalfund íþrótta- og ungmennafélagsins Mývetnings í síðustu viku. Þar var fámennt en góðmennt. Ólöf Þuríður Gunnarsdóttir fráfarandi formaður flutti ársskýrslu Mývetnings. Þar kom m.a. fram að félagið stendur fyrir fjölbreyttu starfi þótt stundum fari það ekki hátt. Um áramótin voru skráðir félagar í Mývetningi 189 „og megum við vera stolt af þessum fjölda í ekki stærra sveitarfélagi“ eins og Ólöf komst að orði. Breytingar urðu á stjórn Mývetnings. Ólöf og Margrét Halla Lúðvíksdóttur gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu en Sigurbjörn Reynir Björgvinsson var kjörinn nýr formaður með lófaklappi. Jóhanna Jóhannesdóttir heldur áfram sem stjórnarmaður og Arnheiður Rán Almarsdóttir hættir sem varamaður og kemur inn sem aðalmaður. Soffía Kristín Björnsdóttir er áfram í stjórn og þá kemur Alma Dröfn Benediktsdóttir ný inn í aðalstjórnina.
Varamenn til eins árs eru Sigríður Jóhannesdóttir og Ragnar Davíð Baldvinsson.

Líf og fjör þegar endurbætt líkamsrækt verður tekin í notkun
Þá er stækkun líkamsræktarinnar í íþróttamiðstöðinni á lokasprettinum. Óhætt er að segja að líkamsræktin hafi verið tekin í gegn, búið er að bæta við fjölmörgum upphitunartækjum, lyftingatækjum og lóðum auk þess sem skemmtilegt teygjurými býður upp á mikla möguleika. Endurbætt líkamsræktarstöð verður tekin formlega í gagnið laugardaginn 4. mars n.k. og verður ýmislegt skemmtilegt í boði í tilefni dagsins. Ókeypis verður í líkamsræktina þann dag, tilboð á kortum sem gilda bara þann dag og þá verður þjálfari á staðnum sem veitir fólki ráðleggingar, hvort sem um er að ræða byrjendur eða lengra komna. Mývetningar eru hvattir til þess að fjölmenna í íþróttamiðstöðina en hún verður opin frá kl. 1016 þann 4. mars næstkomandi. Nánar auglýst síðar.

Fjölmenni heiðraði Sólveigu Erlu
Sólveig Erla Hinriksdóttir sem lét af störfum á skrifstofu Skútustaðahrepps á dögunum var kvödd með opnu húsi á hreppsskrifstofunni þar sem boðið var upp á kaffi og meðlæti. Fjöldi fólks kom við á hreppsskrifstofunni til þess að kveðja Sólveigu Erlu og þakka henni fyrir vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins í hartnær tvo áratugi. Hún hefur nú þegar tekið til starfa sem bókhaldari á Hótel Seli.

Hundar á lögbýlum undanþegnir skráningagjaldi
Rétt er að taka fram vegna góðra ábendinga sem bárust vegna auglýsingar um nýja samþykkt um hunda- og kattahald að nytjahundar, m.a. hundar sem notaðir eru við búrekstur á lögbýlum í umdæmi sveitarstjórnar, eru undanþegnir skráningagjaldinu, líkt og kemur fram í reglugerðinni (sjá 8. gr.). Hins vegar þarf að skrá alla hunda á skrifstofu Skútustaðahrepps. Ef eitthvað er óljóst, hafið endilega samband við skrifstofu Skútustaðahrepps.

Frístundaheimili í undirbúningi
Á fundi skólanefndar kynntu skólastjóri og sveitarstjóri tillögur að frístundaheimili í Reykjahlíðarskóla í samræmi við breytingar á lögum um grunnskóla. Þar segir m.a.:  „Öllum börnum í yngri árgöngum grunnskóla skal gefinn kostur á þjónustu frístundaheimila. Frístundaheimili er frístundavettvangur barna með áherslu á val barna, frjálsan leik og fjölbreytileika í viðfangsefnum og umhverfi. Við skipulag þjónustu frístundaheimila skal tekið mið af þörfum, þroska og áhuga hvers og eins. Sveitarfélög fara með faglegt forræði frístundaheimila, ákveða skipulag starfsemi þeirra og rekstrarform með samþættingu skóla- og frístundastarfs og þarfir barna að leiðarljósi.”  Þá kemur fram í lögunum að ráðuneytið mun að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga gefa út viðmið um gæði frístundastarfs, þ.m.t. um hlutverk og markmið, skipulag og starfsaðstæður, starfshætti, margbreytileika, stjórnun og menntun starfsfólks.  Sveitarfélögum er jafnframt heimilt að taka gjald fyrir vistun barna á frístundaheimili samkvæmt gjaldskrá sem þau setja og birta opinberlega. Samkvæmt tillögunni sem liggur fyrir yrðu skipulag frístundastarfsins með þeim hætti að öllum nemendum yrði boðið að vera í skólanum til kl. 15:10 mánudaga til fimmtudaga og á föstudögum frá kl. 8:30 til 12:50, hádegismatur meðtalinn.  Skólabílar keyra börnin, þar sem við á, í skólann á morgnana og heim kl. 15:10 og á föstudögum kl. 12:50. Ekki yrði boðið upp á aðrar ferðir. Að sjálfsögðu gætu foreldrar sótt börn sín fyrr þegar þeir vilja.  Í frístundastarfinu er ætlunin að verði metnaðarfullt starf í samræmi við viðmið um gæði starfsins, þ.e. hreyfing bæði úti og inni, ýmis konar listsköpun, spil og leikir. Þessi þjónusta mun verða gjaldfrjáls og skólastjóri mun stýra verkefninu. Starfsfólk á vegum grunnskólans heldur utan frístundastarfið, m.a. í samstarfi við Mývetning. Skrá þarf börnin í frístundastarfið til þess að geta skipulagt starfsmannahald. Um þróunarverkefni er að ræða sem endurskoðað yrði reglulega.  Samþykkt var samhljóða að senda fyrirliggjandi tillögu til umsagnar hjá foreldrum/forráðamönnum nemenda í 1.-6. bekk.

Mývatnssleðinn
Mývatnssleðinn verður haldinn í fjórða sinn laugardaginn 11. mars n.k. Keppnin mun fara fram í Álftavogum, norðvestur af Skútustöðum. Skráning stendur yfir og eru glæsileg verðlaun í boði. Nánar upplýsingar má finna á Facebook síðu Mývatnssleðans.

Íslandsmeistaramótið á Mývatni
Íslandsmeistaramót Sleðahundaklúbbs Íslands verður haldið á Mývatni dagana 10.-11. mars n.k. Verður þá mikið um að vera. Nánari upplýsingar á www.sledahundar.is

Ístölt á Mývatni
Hið feyki vinsæla hestamót Mývatn Open – Hestar á ís verður haldið helgina 10. og 11. mars. Hestamannafélgið Þjálfi býður í reiðtúr út á frosið Mývatn á föstudeginum og er öllum hjartanlega velkomið að taka þátt því að kostnaðarlausu. Sel-Hótel Mývatn býður knöpum upp á samlokur og heitt kakó úti í eyju. Síðan hefst mótshaldið á laugardeginum sem endar með hestamannahófi á Sel – Hótel. Nánari upplýsingar á www.myvatn.is

Ýmis mál
Íbúafundur vegna Skjólbrekku verður auglýstur fljótlega en hann verður á dagskrá í mars. Þá verða umhverfisverðlaun afhent við það tækifæri á vegum umhverfisnefndar.  Ég hef sótt ýmsa fundi að undanförnu, m.a. hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, umhverfisráðuneyti, skólanefnd o.fl. sem of langt yrði að gera efnislega skil hér.

Sem fyrr er hér er stiklað á stóru. Ætlunin er að pistill sveitarstjóra birtist tvisvar í mánuði, í kjölfar sveitarstjórnarfunda.

Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri

8. pistill (þar sem skoða má myndir líka)