Nýliðaval NBA á fimmtudag – Verður Tryggvi valinn ?

0
204

Tryggvi Snær Hlinason leikmaður íslenska landsliðsins í körfubolta og Valencia Basket á Spáni verður í pottinum þegar nýliðaval NBA-deildarinnar í körfuknattleik fer fram á fimmtudag í New York. Alls verða 60 leikmenn valdir af liðunum 30 þetta kvöld.

Eins og greint hefur verið frá hér á 641.is að undanförnu hefur Tryggvi Snær verið í Bandaríkjunum síðustu daga þar sem hann hefur ferðast á milli borga þar í landi til að koma sér á framfæri fyrir nýliðavalið. Hann æfði fyrst hjá Phoenix Suns, síðan hjá Denver Nuggets og eftir það hjá Dallas Mavericks. Í gær æfði Tryggvi hjá Los Angeles Clippers og í dag æfir hann með Oklahoma City Thunder.

Rúv.is segir frá því í dag að foreldrar Tryggva verði viðstödd nýliðavalið í New York á fimmtudag, ásamt þeim Ágústi Guðmundssyni og Benedikti Guðmundssyni fyrrverandi þjálfurum hans. Einnig verður Hannes S. Jónsson formaður KKÍ viðstaddur.

Móðir Tryggva, Guðrún Tryggadóttir, sagði í stuttu spjalli við 641.is nú í kvöld að mikil spenna væri fyrir valinu á fimmtudaginn og að það yrði mikil upplifun að verða viðstödd nýliðavalið í New York.

Á Yahoo Sports vefnum er birt ítarleg og áhugaverð frétt um Tryggva Snæ í dag. Í fréttinni er rakinn sérstakur og óvenju stuttur ferill Tryggva Snæs í körfubolta, en eins og flestir vita byrjaði Tryggvi að æfa og spila körfublota fyrir aðeins fjóru og hálfu ári síðan. Í greininni dregur þó blaðamaðurinn nokkuð í efa að Tryggvi sé tilbúinn fyrir NBA-deildina strax.

“The consensus in basketball circles is that Hlinason is not ready to contribute at the NBA level yet, but he could carve out a role down the road as a shot-blocking,  lob-catching center who contributes on the glass at both ends”.

641.is mun fylgjast náið með nýliðavalinu á fimmtudagskvöldið, með myndum frá valinu og hugsanlega verður Tryggvi orðinn NBA leikmaður að nýliðavalinu loknu.