Nýir eigendur að Heimabakarí – Eðalbrauð ehf

0
329

María Guðmundsdóttir og fjölskylda hafa gert samkomulag um sölu á öllum eignarhlut sínum í Heimabakarí – Eðalbrauð ehf. Kaupandi er Bakaríið við brúna ehf. Gleráreyrum 2 Akureyri.Í fréttatilkynningu frá Maríu og fjölskyldu segir að fulltrúi kaupanda komi til starfa í bakaríið með núverandi starfsfólki fljótlega eftir verslunarmannahelgi, en nýir eigendur taka síðan að fullu við rekstrinum í byrjun september.

Heimabakarí á Húsavík. Mynd: Hafþór Hreiðarsson.
Heimabakarí á Húsavík. Mynd: Hafþór Hreiðarsson.

Þar segir jafnframt: Fyrir Maríu og fjölskyldu hafa það verið þung spor að taka ákvörðun um að selja, en að vel athuguðu máli er það niðurstaðan. Fjölskyldan vill þakka fyrir áralöng viðskipti við bakaríið og þá tryggð sem því hefur verið sýnd í gegnum árin. Einnig vill María þakka öllu því starfsfólki sem komið hefur að verki í bakaríinu.

 

En verandi að selja þykir Maríu og fjölskyldu það góður kostur að Bakaríið við brúna ehf. taki við rekstrinum. Mörg þekkjum við það bakarí, sem hefur byggt sig upp frá grunni sem gott handverksbakarí á undanförnum 13 árum og er þekkt fyrir góða vöru og þjónustu. Fjölskyldan býður nýja eigendur velkomna og óskar þeim góðs gengis.
Fyrir viðskiptavini bakarísins verða þetta í raun ekki miklar breytingar, þetta verður húsvískt fyrirtæki áfram, með nýjum eigendum.

f.h. Heimabakarí – Eðalbrauð ehf. María Guðmundsdóttir.