
Á næstu dögum verður tekin í notkun ný stórviðarsög í starfstöð Skógræktar ríkisins á Vöglum í Fnjóskadal. Sögin gerir kleift að nýta betur þann við sem til fellur við grisjun og skógarhögg á starfsvæði skógarvarðarins á Norðurlandi. Vaxandi áhugi er á íslensku timbri til margvíslegra nota. Frá þessu segir á skógur.is í dag.

Sögin nýja er af gerðinni Woodmizer LT40. Hún getur sagað allt að 90 sentímetra svera boli og allt að 8,6 metra langa. Varla mun þó reyna mjög á þessi mörk á næstunni enda lítið um svo stórvaxin tré á Íslandi enn sem komið er. Þeim trjám fjölgar þó óðum í skógum landsins sem vinna má í planka og borð sem gefur auknar tekjur fyrir skógareigandann. Á söginni nýju er vökvabúnaður sem auðveldar mjög alla vinnu við hana, meðal annars að koma bolunum upp á sögina og velta þeim á henni. Slegið er inn í tölvu vélarinnar hversu þykkt skuli saga og þá er leikur einn að saga.
Til að byrja með verður söginni komið fyrir í einu af gróðurhúsunum á Vöglum sem áður voru notuð til ræktunar meðan gróðrarstöðin var og hét. Vonast er til þess að síðar verði reist skemma yfir viðarvinnsluna á Vöglum enda horfur á því að umfang hennar aukist í takt við vöxt skóganna. Talsvert hefur nú þegar verið tekið frá af gildum bolum á Vöglum, bæði greni og fura, sem meiningin er að vinna í nýju söginni. Timbrið nýtist vel við ýmsar smíðar og viðhaldsverkefni á staðnum en verður einnig til sölu. Fyrirspurnir um timbur eru þegar farnar að berast og til dæmis hefur bóndi í nágrenninu lýst áhuga á því að láta saga fyrir sig gólfborð í útihús.
Meðfylgjandi mynd tók Rúnar Ísleifsson skógarvörður þegar sögin nýja var tekin út úr gámnum í síðustu viku og flutt inn í gróðurhús með hjálp vörubílskrana og forláta Ferguson sem þjónað hefur vel og lengi á Vöglum og gerir enn. Nú er unnið að því að setja vélina upp og stefnt að því að setja hana í gang síðar í vikunni. (Pétur Halldórsson)
Skógur.is (Þar má sjá fleiri myndir)
