Norðurþing – Reykjahverfið væntanlega ljósleiðaravætt á þessu ári

Klárað að ljósleiðaravæða Norðurþing 2018

0
406

Á 13. fundi Framkvæmdanefndar Norðurþings sem haldinn var 20. febrúar var samþykkt að stefna að hönnun og lagningu ljósleiðara um Reykjahverfi árið 2017.

Í fundargerð nefndarinnar segir m.a. að athugað verði með samlegð við nærliggjandi framkvæmdir Þingeyjarsveitar. Þá verði lokið við hönnun ljósleiðarakerfis um þá hluta dreifbýlis Norðurþings sem eftir standa og gert ráð fyrir að sækja um styrki fyrir framkvæmdum í kjölfarið þannig að ljúka megi því verkefni á árinu 2018.

Fjallað verður um kostnað og fjárheimild til verkefnisins síðar þegar kostnaður og útfærsla liggja fyrir.

Fjórir af fimm nefndarmönnum samþykktu þetta en fimmti nefndarmaðurinn, Kjartan Páll Þórarinsson var á móti.

Samkvæmt heimildum 641.is er talið líklegt að sveitarstjórn Norðurþings muni samþykkja tillögu Framkvæmdanefndar og íbúar í dreifbýlishluta Norðurþings muni geta tengst ljóseliðara á þessu ári og á því næsta.

Frábært fyrir sveitina

Valþór Freyr Þráinsson bóndi á Litlu-Reykjum í Reykjahverfi sagði í spjalli við 641.is að það yrði frábært fyrir sveitina að fá loksins alvöru samband og verða þá komnir með fjarskiptaþjónustu sem væri á pari við íbúa í Þineyjarsveit, Mývatnssveit og á Tjörnesi.

Fundargerðina má lesa hér.