Norðurþing og Búfesti hsf staðfesta viljayfirlýsingu – og nýtt framboð íbúða

0
251

Sveitarfélagið Norðurþing og húsnæðissamvinnufélagið Búfesti hafa undirritað viljayfirlýsingu um að auka framboð leigu- og búseturéttaríbúða á Húsavík og mögulega víðar í Norðurþingi.

Í tilkynningu frá Búfesti og Norðurþingi segir að Búfesti hsf og sveitarfélagið Norðurþing munu leita leiða til að þróa nýtt og hagkvæmt íbúðaframboð á Húsavík og mögulega víðar í Norðurþingi. Aðilar munu vinna sameiginlega að því að tryggja fullfjármögnun íbúða sem væri ráðstafað í leigu-/leigurétti eða hóflegum búseturétti í samræmi við nánari reglur og samþykktir Búfesti hsf

Búfesti hsf hefur mótað þá stefnu að í almennum fjölbýlishúsum og íbúðakjörnum á vegum félagsins skuli gera ráð fyrir hagfelldri blöndun íbúa og breiðri gerð íbúða, bæði að stærðum og verðflokkum.

Þetta er til samræmis við stefnu Norðurþings um uppbyggingu ákjósanlegs húsnæðisframboðs í sveitarfélaginu.

Búfesti hsf leggur áherslu á að allar íbúðir í stærri kjörnum félagsins verði í samrekstri/búseturétti þannig að þjónusta og heildarsvipur hverfis verði samhæfður. Norðurþing getur kallað eftir því að tiltekið hlutfall íbúða verði til ráðstöfunar fyrir sértæka hópa (eldri borgara, lágtekjufólk, fatlaða) eða að einstakar íbúðir verði seldar neytendum –  en þó þannig að um væri að ræða fullfjármagnaða búseturétti með takmörkuðum heimildum til áframsölu. Aldrei skal þó meira en 25% allra íbúða vera skilyrt til ráðstöfunar sérgreindra hópa.

Norðurþing hefur þá sýn að Búfesti hsf verði tryggður aðgangur að byggingarsvæði til lengri tíma þar sem unnt er að vinna að raðsmíði og samstarfi við einn framleiðanda/öfluga framleiðendur íbúða  og ná þannig að lækka framkvæmdakostnað svo máli skipti.   Í samvinnu við Búfesti hsf mun Norðurþing þróa deiliskipulag byggingarreita sem mætir þörfum Búfesti hsf með það fyrir augum að sem mestri hagkvæmni verði náð og byggingakostnaður verði sem lægstur en um leið verði tryggt að gæði íbúða og umhverfis verði í góðu samræmi við kröfur.

Búfesti hsf hyggst sækjast eftir stofnstyrkjum vegna bygginga íbúða fyrir lágtekjufólk, eldri borgara, fatlaðra og/eða stúdenta í samræmi við lög nr.52/2016 eftir því sem slíkt fellur innan markmiða félagsins og samræmist mati Norðurþings á íbúðaþörf á hverjum tíma.

Aðilar eru sammála um að leita liðsinnis stéttarfélaga eða hagsmunafélaga eldri borgara og fatlaðra um hönnun og væntingar mögulegrar uppbyggingar húsnæðis – og einnig að unnið verði með einstökum fyrirtækjum sem vilja verða „velvildarfjárfestar“ – þannig að viðkomandi aðilar geti tryggt starfsmönnum/félagsmönnum forgang að einhverjum fjölda íbúða.

Norðurþing mun sækja um þróunarstuðning frá Íbúðalánasjóði til tilraunverkefna á landsbyggðinni í samræmi við auglýsingar þar um.    Búfesti hsf og Faktabygg/Faktabygg Ísland staðfesta áhuga á að vinna að útfærslu á tilraunaverkefni sveitarfélagsins til lækkunar byggingarkostnaðar.

Á meðfylgjandi mynd, sem fengin er af heimasíðu Búfesti, eru Kristján Þór Magnússon og Benedikt Sigurðarson við undirritun viljayfirlýsingarinnar.