Norðursigling vinnur til verðlauna fyrir umhverfisvæna ferðamennsku

0
198

Norðursigling hlaut silfurverðlaun World Responsible Tourism Awards 2015 á World Travel Market (WTM) í London þ.4. nóvember sl.  Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskt ferðaþjónustufyrirtæki er heiðrað með þessum hætti á WTM sem er ein stærsta og mikilvægasta ferðasýning heimsins. Verðlaunin fékk Norðursigling fyrir Opal verkefnið, en Opal er rafknúið hvalaskoðunarskip hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Frá þessu segir á vef Norðursiglingar í dag.

Guðbjartur Ellert Jónsson f.m., tekur á móti verðlaununum frá  Justin Francis og Prófessor Harold Goodwin frá WTM Responsible Tourism
Guðbjartur Ellert Jónsson f.m., tekur á móti verðlaununum frá Justin Francis og Prófessor Harold Goodwin frá WTM Responsible Tourism

Seglskipið Opal er tæknivæddasta skipið sem notað er í hvalaskoðun á Íslandi en skipið er með nýjan og sérhannaðan skrúfubúnað sem hleður rafgeyma skipsins undir seglum. Rafgeymar Opal eru hlaðnir með umhverfisvænni orku í höfn en þegar siglt er undir seglum er hægt að breyta skurði skrúfublaðanna og hlaða rafmagni inn á geyma skipsins. Hvalaskoðunin verður vegna þessa enn hljóðlátari sem hefur jákvæð áhrif á upplifun gesta og hefur mun minni truflandi áhrif á hvalina sem skoðaðir eru. Búnaðurinn hefur vakið mikla athygli erlendis og hefur Norðursigling nú uppskorið verðlaun fyrir vikið.

 

Á Ferðamálaþingi sem haldið var á Akureyri í október sl. hlaut Norðursigling Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2015. Dómnefnd horfði sérstaklega til Opal verkefnisins sem og áherslu Norðursiglingar á verndun og viðhald gamalla eikarbáta. Síðast en ekki síst var Norðursigling valið fyrirtæki ársins af Markaðsstofu Norðurlands.  Þessi viðurkenning er veitt til fyrirtækis sem hefur skapað sér stöðu á markaði og unnið að stöðugri uppbyggingu og vöruþróun.

Í september sl. bættist nýr hluthafi, Eldey TLH hf. í hóp eigenda Norðursiglingar. Eldey fjárfestir í sterkum afþreyingarfyrtækjum sem hafa uppbyggingu, vöruþróun og sjálfbærni að leiðarljósi. Aðrir eigendur Norðursiglingar eru stofnendurnir bræðurnir Hörður og Árni Sigurbjarnarsynir og Heimir Harðarsson.

Framkvæmdastjóri Norðursiglingar, Guðbjartur Ellert Jónsson, segir að verðlaunin á WTM og Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu og viðurkenning frá Markaðsstofu Norðurlands skipti félagið mjög miklu máli.

„Við verðum vör við það að ferðamenn eru í síauknum mæli að velta fyrir sér umhverfisáhrifum og viðurkenningar sem þessar hvetja okkur áfram í þróun sjálfbærrar og umhverfisvænnar ferðaþjónustu.  Það eru spennandi tímar framundan við að efla og bæta vistvænt vöruframboð félagsins og vinna með nýjum hluthafa sem óneitanlega setur enn meiri byr í seglin“. Norðursigling.is