Norðausturland – kjörlendi öflugra tækifæra

0
72

Ég gef kost á mér í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi þann 26. janúar nk. Ég hef einarðan vilja til að vinna fyrir þetta kjördæmi og bið því um stuðning kjósenda í 2. sætið. Ég tel mikilvægt að til forystu veljist fólk sem hefur þekkingu á málefnum kjördæmisins og þeim aðstæðum og þörfum sem eru til staðar, hefur reynslu og hæfni úr samfélaginu og  búsetu þar.

Valgerður Gunnarsdóttir
Valgerður Gunnarsdóttir

 

Ég hef á undanförnum vikum hitt og heyrt í fjölmörgu sjálfstæðisfólki og átt við það afar fræðandi og gagnlegar samræður.  Það skiptir mig miklu máli að vera í góðum tengslum við fólk, hlusta á og fá ráðleggingar og upplýsingar sem að gagni koma.  Ég er þakklát fyrir þær góðu viðtökur sem ég hef alls staðar mætt.

 

 

 

 

Ég er reiðubúin að vinna að öllum þeim málum sem vinna þarf að og eru til góða fyrir kjördæmið og íbúa þess. 

Ég hef unnið að uppbyggingu og framgangi mennta- og menningarmála á undanförum 30 árum og mun halda áfram að beita mér þar.

Ég hef mikinn áhuga á velferð barna og unglinga og tel mikilvægt að við séum vel á verði og leggjum gríðarlega áherslu á að tryggja öryggi þeirra á allan mögulegan hátt.

Ég vil vinna að því að allir eigi kost á nýta sinn sköpunarkraft og hugmyndaauðgi til góðra verka fyrir sig og sitt samfélag.

Ég vil vinna að því að samgöngur um þetta kjördæmi séu öruggar og greiðar og ég tel að veggöng séu  það sem koma skal, þar sem nú eru erfiðir fjallvegir og til lengri tíma litið kostnaðarminni,  m.a vegna mikils kostnaðar sem sparast í snjómokstri.  Ég fagna því að Vaðlaheiðargöng eru að verða að veruleika , en minni á að þau eru ekki  ný hugmynd núverandi ríkisstjórnar.  Það má rekja fyrstu hugmyndir  Vaðlaheiðarganga allt til 1974, þegar Tryggvi Helgason flugmaður, ýtti þeirri hugmynd úr vör.  Göng á Austfjörðum er afar brýnt verkefni.

Ég tel einnig afar mikilvægt að netvæðing dreifðra byggða, sem og þéttbýlis, sé forsenda atvinnu, upplýsingaflæðis og samskipta í lifandi landi í dag.  4G er næsta kynslóð og það á að leggja kapp á draga úr kostnaði almennings við að tengjast og nota þennan samskiptamáta.

Ég tel afar mikilvægt að aðgengi að heilbigðisþjónustu sé sem næst íbúum og vil styðja við þá vinnu sem unnið er að í kjördæminu til  þess að ná því markmiði.

Ég tel mikilvægt að atvinnulíf sé fjölbreytt og stærð fyrirtækja sé mismunandi.  En ég vil benda á að það er afar mikilvægt að hafa stór fyrirtæki í sjávarútvegi og iðnaði innan kjördæmisins, sem skila góðum tekjum til byggðarlaganna og það þarf að fara varlega í að flytja arð þeirra, með óhóflegri skattlagningu, úr byggðunum.

Ég tel nauðsynlegt að skattkerfið sé einfaldara en nú er.  Þar þarf að ríkja stöðugra umhverfi, sem gerir fyrirtækjum og heimilum auðveldara að skipuleggja og áætla fram í tímann. Ég tel fráleitt að fyrirtækjum sé boðið upp á skyndibreytingar í skattlagningu, sem getur valdið miklum skaða í þeirra markaðssetningu.

Ég tel afar brýnt að á næsta kjörtímabili eigi sér stað raunveruleg, alvöru vinna við að lagfæra skuldastöðu heimilana og það má alls ekki sópa þeirri vinnu undir teppið,  eins og gert hefur verið í tíð núverandi ríkisstjórnar.  Sterk heimili eru grunnur að sterku þjóðlífi.

Ég tel mikilvægt að íslenskir bændur njóti sanngirni og virðingar, þeir framleiða besta kjötið, besta grænmetið, bestu mjólkurvörur og svo mætti lengi telja.  Það verður ekki aftur snúið ef sú stétt tapast úr atvinnuflórunni.

Ég vil að við nýtum þá orku og auðlindir sem eru til staðar í kjördæminu til uppbygginar atvinnu og mannlífs á því svæði.

Ég tel mikilvægt að auka virðingu Alþingis.  Til setu á síðasta þingi völdust margir reiðir einstaklingar og framkoma þar var ekki viðunandi.  Ég vil vinna að því að endurheimta fyrra traust og virðingu þjóðþings okkar.

_  _  _  _  _  _ __

 

Ég er fædd á Dalvík árið 1955 og bjó þar við mjög góðar aðstæður í öllu tilliti til 16 ára aldurs.  Ég fór þá til náms í Menntaskólanum á Akureyri og til sumarvinnu í fiski á Seyðisfirði næstu  4 ár.  Ég stundaði nám í íslenskum fræðum og bókmenntum í Háskóla Íslands og lauk þaðan B.A. prófi.  Ég lauk prófi í kennslu- og uppeldisfræðum frá Háskólanum á Akureyri.  Ég hef auk þess lokið diplómu í stjórnun og hef að baki fjölbreytt starfstengd námskeið.

Ég er elst 5 systkina, systur mínar báðar, Hulda og Edda,  eru hjúkrunarfræðingar og bræður mínir tveir , Gunnar og Jóhann, voru og eru  skipstjórnarmenntaðir og áttu mestan sinn starfaldur á sjónum.  Faðir minn, Gunnar Þór Jóhannsson, var skipstjóri á fiskiskipum til áratuga og móðir mín Ásta Sveinbjörnsdóttir, er húsmóðir.

Ég er gift Örlygi Hnefli Jónssyni,  héraðsdómslögmanni á Húsavík.  Við eigum 3 börn, Emilíu Ástu f. 1977, Örlyg Hnefil, f. 1983 og Gunnar Hnefil f. 1990.  Þá eigum við 3 barnabörn, börn Emilíu, sem er gift Ómari Erni Hauksyni.  Örlygur yngri er í sambúð með Jóhönnu Ásdísi Baldursdóttur.

Við hjónin  fluttum til Húsavíkur 1982.  Ég var ritari sýslumanns fyrsta árið þar, en vann síðan í Lífeyrissjóðinum Björgu og Alþýðubankanum þar til ég hóf kennslu við Framhaldsskólann á Húsavík 1987 og kenndi þar til 1999.

Árið 1999 var ég skipuð skólameistari við Framhaldsskólann á Laugum og það er núverandi starf mitt.  Ég er einnig formaður Skólameistarafélags Íslands frá 2009 og formaður Samstarfsnefndar framhaldsskóla á Norðurlandi frá 2006.

Ég sat í Bæjarstjórn Húsavíkurkaupstaðar í 3 kjörtímabil eða 12 ár fyrir Kvennalista.  Ég var forseti bæjarstjórnar 1994-1996.  Ég sat í skólanefnd Framhaldsskólans á Húsavík frá 1987 til 1999.  Ég sat í stjórn Listaverkasjóðs Húsavíkur 1990-1994. Ég sat í menningarmálanefnd Húsavíkur 1994-1998.  Ég sat í fræðslu- og menningarmálanefnd Húsavíkur 1998-1999.  Ég sat í stjórn útgerðarfélagsins Höfða 1986-1990.  Ég var varamaður í bæjarráði Húsavíkur 1986-1998, auk annarra ótalinna nefnda.

Ég hef alltaf lagt áherslu á að vinna þau verk sem mér eru falin af vandvirkni og alúð, sama hver þau hafa verið og svo mun verða áfram.

Ég hef í gegnum störf mín og þátttöku í sveitarstjórnarmálum góða þekkingu og reynslu.   Ég hef búið og starfað í kjördæminu að undanskildum háskólaárum  og gjörþekki því aðstæður.  Ég er landsbyggðarkona og vil veg landsbyggðar sem mestan.

Ég vil, eins og ég sagði í upphafi, vinna að öllum góðum málum sem eru til hagsbóta fyrir okkar kjördæmi og landið okkar .

Ég hef reynslu  og þor og ég er með báða fætur á jörðinni í þessu kjördæmi.  Ég bið þig um stuðning í 2. sætið í prófkjöri sjálfstæðismanna þann 26. janúar.