Nóra með tónleika í Litla-Garði á Akureyri.

0
114

Fimmtudaginn 23. ágúst ætlar reykvíska hljómsveitin Nóra að leggja land undir fót og halda tónleika í Hlöðunni, Litla-Garði á Akureyri.

Önnur breiðskífa sveitarinnar er í þann mund að koma út og er hennar beðið með mikilli eftirvæntingu, enda fékk fyrsta platan, “Er einhver að hlusta” mjög góða dóma. Sökum þess að stór hluti sveitarinnar er ættaður úr Eyjafirðinum fagra (nánar tiltekið Hríshóli) og Svarfaðardalnum að auki ætlar Nóra að gefa sveitungum forskot á sæluna og spila fyrir þá efni af væntanlegri breiðskífu.
En hljómsveitin er ekki aðeins af eyfirskum ættum, heldur einnig þingeyskum, úr Bárðardal (Svartárkoti/Víðikeri og Hvarfi/Eyjardalsá) og Ljósavatnsskarði (Arnstapa). Því eru Þingeyingar jafn velkomnir og Eyfirðingar.

Aðgangseyrir er litlar 1000 krónur til að dekka ferðakostnað og tónleikarnir hefjast kl. 21:00.

Tónleikarnir eru styrktir af menningarráði Eyþings.Hljómsveitin Nóra.