Leikfélag Húsavíkur og Framsýn vinna nú saman að því að undirbúa komu um 50 Færeyinga til Húsavíkur. En það er karlakórinn í Nólsey í Færeyjum sem er á leiðinni til Íslands og Húsavíkur. Erindi þeirra til landsins er að syngja og dansa á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði. Þeim þótti mikilvægt að heimsækja Húsvíkinga í leiðinni. Þeir ætla að skella sér Demantshringinn á föstudaginn kemur og enda hringinn á að skemmta á Húsavík. Þeir verða í salnum í Borgarhólsskóla kl. 20. Ókeypis er á tónleikanna.
Samstarf LH og Framsýnar hófst nokkurn veginn fyrir tilviljun, þar sem Halla Rún fyrir hönd LH var beðin um að vera tengiliður þessa hóps hér á Húsavík. En Ljótu Hálfvitarnir og Stopp leikhópurinn (með Margréti Sverrisdóttur leikkonu og Húsvíking innanborðs) fóru til Færeyja fyrir nokkrum árum og voru einmitt á Nólsey. Þannig að tenging þeirra Nólseyinga við Húsavík er eiginlega í gegnum nokkra hálfvita.
Tenging Framsýnar við þennan hóp er að sjálfsögðu í gegnum Aðalstein Árna en hann hefur farið utan í hinum ýmsu erindagjörðum og m.a. þegið heimboð hjá þeim Hilmari og Gunnvöru sem fara fyrir þessum hópi. Því það er ekki einungis karlakórinn hér á ferðinni heldur var sú ákvörðun tekin þegar ferðin var ákveðin í upphafi að þetta yrði fjölskylduferð. Svo meðlimir Nólsoyjar manskór eru hér með alla fjölskylduna.
Og Halla Rún var búin að vera í samskiptum við Gunnvöru í nokkurn tíma og Aðalsteinn við Hilmar. Þá kemur fyrir einskæra tilviljun fram í samskiptum Aðalsteins og Hilmars að Halla Rún sé eitthvað með puttana í þessu. Þá fóru hjólin að snúast og fljótlega var Árni Vill, Færeyingavinur með meiru kominn í undirbúninginn líka.
Það er von okkar að sem flestir nýti sér þetta tækifæri, að sjá færeyskan dans og söng hér á Húsavík. Svo er ókeypis inn. Framsýn.is