Laxveiði hófst í Laxá í Aðaldal í gær. Óhætt er að segja að byrjunin lofi góðu fyrir sumarið því níu laxar veiddust á opnunardeginum. Vigfús Bjarni Jónsson á Laxamýri veiddi tvo laxa í gær og var annar þeirra 17 pund en hinn 19 pund.

Á mbl.is segir að eftir nokkur köst í Bjargstreng, sem er fyrir neðan Æðarfossa, setti veiðimaðurinn Vigfús Bjarni Jónsson á Laxamýri strax í lax á glænýja stöng sem hann hafði fengið stuttu áður í útskriftargjöf. Að sögn Jóns Helga Björnssonar á Laxamýri voru fiskarnir fallegir sem veiddist í gær og var Jón Helgi bjartsýnn á gott veiðisumar.
