Neyðarstig áfram í gildi

0
81

Leit að fé í fönn á Norðurlandi hefst aftur í birtingu í dag. Leitin stóð fram í myrkur í gær á Þeistareykjasvæðinu og víðar. Meginþungi leitarinnar í dag verður á Þeistareykjasvæðinu, í Fnjóskadal og á Flateyjardal.

Leitað að fé norðan Arnarvatns í Mývatnssveit í gær.
Mynd: Finnur Baldursson

„Það hefur verið lögð mest áhersla á Þeistareykjasvæðið. Þar hafa verið um 80 leitarmenn með sín tæki og tól. Þeir fundu allnokkuð af fé og mest á lífi,“ sagði Svavar Pálsson, sýslumaður á Húsavík og yfirmaður almannavarna í Þingeyjarsýslu í gær. Svavar segir að 140-150 manns hefðu mætt til leitar í gærmorgun og átti hann von á að yfir 200 manns yrðu við leitir í dag. Neyðarstig almannavarna er enn í gildi. Um 250 björgunarsveitarmenn víða að af landinu verða við leitarstörf í dag, auk bænda og búaliðs og fleiri.

Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra gerir ráð fyrir að hamfarirnar á Norðurlandi verði ræddar í ríkisstjórn á morgun. Hann segir að ekki sé víst að ríkið þurfi að leggja meira fé í Bjargráðasjóð vegna þeirra búsifja sem bændur á Norðausturlandi hafa orðið fyrir. Steingrímur útilokar ekki að afurðatjón bænda mælist frekar í tugum milljóna en milljónum.  mbl.is