Náungakærleikur í verki

0
247

Vegna veikinda Gunnars Hallgrímssonar bónda í Klambraseli í Aðaldal og yfirvofandi aðgerðar ákvað Bjarni Eyjólfsson bóndi á Hvoli í Aðaldal og formaður Fjárræktarfélags Aðaldæla, að hringja út nokkra bændur sem tóku sig saman ásamt fylgdarliði og skruppu í Klambrasel til að rýja kindurnar þar.

Bjarni á Hvoli, Guðmundur Koti, Sæþór Presthvammi, Árni Brúnahlíð, Böðvar Ystahvammi, Björgvin Kraunastöðum, Böðvar Hraunbæ, Grétar Koti, Gunnar Óli Sandi og María Sandi
Á myndinni má sjá, Bjarna á Hvoli, Guðmund í Koti, Sæþór í Presthvammi, Árna í Brúnahlíð, Böðvar í Ystahvammi, Björgvin á Kraunastöðum, Böðvar í Hraunbæ, Grétar í Koti, Gunnar Óla og Maríu á Sandi og Gunnar í Klambraseli lengst til hægri.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkurinn taldi þegar mest var 10 manns, rúið með 5 klippum og 5 lagningsmenn. Eins og Gunnar sjálfur sagði svo skemmtilega þá var líflegt í fjárhúsunum og tók rúningurinn fljótt af, enda vanir menn að verki.

Gunnar Hallgrímsson bóndi í Klambraseli
Gunnar Hallgrímsson bóndi í Klambraseli

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ragnheiður kona hans bar svo á disk með myndarskap ljómandi hangikjöt með uppstúf og kartöflum í hádeginu og pönnukökur og hjónabandssælu eftir rúning svo rúningsmenn og fylgdarlið fóru heim í góðum holdum. Enn og aftur sýnir það sig að þegar eitthvað bjátar á í litlu samfélagi hjálpast menn að og passa upp á náungann.

Bestu þakkir fyrir daginn, skrifar Böðar Jónsson, sem tók meðfylgjandi myndir og sendi 641.is.

Guðmundur Jónsson Fagraneskoti í Aðaldal við rúning í Klambraseli.
Guðmundur Jónsson Fagraneskoti í Aðaldal við rúning í Klambraseli.