Mývetningar ljósleiðaravæðast – Fyrstu notendur virkjast í vikunni

0
299

Fjarskiptafélag Mývatnssveitar og Tengir ehf. hafa unnið að lagningu ljósleiðara á öll heimili í Mývatnssveit að undanförnu. Nú sér fyrir endann á því verki því búið er að leggja ljósleiðara og koma fyrir tengiboxi í flest hús í Mývatnssveit og hafin er vinna við að virkja sambönd. Að sögn Karls Emils Sveinssonar formanns Fjarskiptafélags Mývatnssveitar er von á ráterum í næstu viku og Karl reiknar með því að fyrstu heimilin í Mývatnssveit tengist ljósleiðararnum fyrir næstu helgi.

Rör plægt niður fyrir ljóleiðarann. Mynd: Lárus Björnsson.
Rör plægt niður fyrir ljósleiðarann. Mynd: Lárus Björnsson.

 

Að sögn Karls á eftir að leggja ljósleiðarann inn á nokkur heimili og á því verki að ljúka í næstu viku. Hvert heimili í Mývatnssveit sem tengist ljósleiðaranum, borgar 50.000 króna stofngjald og síðan 4.000 króna mánaðargjald vegna ljósleiðarans. Þá er ótalin sá kostnaður sem fjarskiptafélögin taka fyrir internet, síma eða sjónvarpsþjónustu sem notendur í Mývatnsveit geta nýtt sér með tilkomu ljósleiðarans.

 

 

 

Stofnkostnaðurinn verður innheimtur á næstu dögum með greiðsluseðlum frá Fjarskiptafélagi Mývatnssveitar, en mánaðargjaldið mun Tengir ehf. innheimta en þeir sjá um rekstur kerfisins.

Undirbúningur vegna  þverun vegar. Mynd: Lárus Björnsson
Undirbúningur vegna þverun vegar. Mynd: Lárus Björnsson

 

Að sögn Karls Emils er heildarkostnaðurinn vegna ljósleiðaravæðingu Mývatnsveitar að nálgast 100 milljónir króna, sem er nálægt 600.000 krónur á hvert heimili og telur hann það vel ásættanlegt.

Vinna vegna lagningar ljósleiðara er hafin á Tjörnesi en tilboði frá Tengi hf. vegna uppsetningar og tengingar ljósleiðarakerfis þar, var samþykkt í sumar. Heildarkostnaður vegna tengingu 29 húsa og frágang á 15 tengiholum, ásamt öllum búnaði er kr. 7.186.773 og á Tjörneshreppur kerfið.

 

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkti á sveitarstjórnarfundi 4. september sl. að stefna að því að leggja ljósleiðara um allt sveitarfélagið á næstu þrem til fimm árum og var Atvinnumálanefnd og sveitarstjóra falið að vinna málið áfram og leggja sem fyrst fyrir sveitarstjórn tillögu um framhaldið.

Ljóst er því að innan fárra ára verða internettengingar í sveitum Þingeyjarsýslu komnar á par við það sem best gerist á landinu.