Mosi melrakki

0
517

Í Fnjóskadal er rekinn húsdýragarðurinn Daladýrð. Daladýrð er stærsti húsdýragarður landsins, alla vega í flatarmáli talið. Daladýrð hefur verið starfrækt frá 2017 og gengur reksturinn eftir áætlun. Í fyrra varð aukningin ekki eins mikil og ætlað varð vegna veðurfarsins hér fyrir norðan. „Ef ég væri stjórnmálamaður“ segir Guðbergur „þá myndi ég tala um varnarsigur“ og brosir. Vegna Covid er ekki mikið um erlenda ferðamenn þetta sumarið en Íslendingarnir mæta í staðinn. Á milli þrjú hundruð og þrjú hundruð og fimmtíu gestir hafa komið í heimsókn daglega undanfarna daga.

Í Daladýrð eru kindur, kýr, kálfar, geitur, hæns, hestar, hundar, kettir, kettlingar og fimm yrðlingar. En engin tófa.

Bræður.
Leynist eitthvað gott í greninu.

Aðspurður segir Guðbergur grenjaskyttur hafi fært honum yrðlingana svo þeir eru munaðarlausir. Hann fékk yrðlinga líka síðasta sumar en þeir sáu sér færi um haustið og struku. Um veturinn sást einn refur feitur og sællegur og er Guðbergur nokkuð viss um að hann hafi verið einn af sínum.

Stærri yrðlingarnir tveir, Snjólfur og Hrólfur voru orðnir stálpaðri en hinir þrír þegar þeir komu í garðinn. Þeir vilja lítið af fólkinu vita og borða ekki úr hendi nema þeir séu virkilega svangir. Hins vegar bíta þeir aldrei í höndina. Snjólfur og Hrólfur verða alhvítir með aldrinum.

Snjólfur og Hrólfur fá bita.

Af hinum þremur eru tveir brúnir, Kjammi og Hnoðri, en Mosi er snoðdýr. Íslenski refurinn er heimskautarefur og hann finnst víðar á Norðurslóðum. Snoðdýrið er afbrigði af heimskautarefnum en finnst aðeins hér á Íslandi.  Snoðdýr eru heldur tætingsleg, eru með skertan hárvöxt og jafnvel hárleysi að hluta. Talið er að þetta sé smitsjúkdómur sem smitist frá móður til yrðlings.

Guðbergur segir að hugmyndir séu um að snoðdýrið sé það sem stundum var kallað skoffín í þjóðsögum en skoffínið var talið afkvæmi læðu og refs. Snoðdýrið er ekki með hið veglega refaskott heldur líkist skottið kattarófunni.

Litla skoffínið.

Refir eru ekki hjarðdýr heldur einfarar og hafa enga þörf fyrir eitthvert kjass og knús. Þeir þola Guðberg af því hann gefur þeim mat og skjól en að öðru leyti vilja þeir ekkert með hann hafa. Hann má taka þá upp en ekki lengi því þeir nenna ekki einhverri svona vitleysu. Úlfur getur orðið vinur þinn en ekki refurinn.

“Náði í bita.”

Mosi er mjög fjörugur og er að allan tímann. Hann vill mat sinn og engar refjar og hikar ekki við að slást við bræður sína um kæfuna sem Guðbergur gefur þeim.

Úti í náttúrunni eru refir á ferð í tólf til fjórtán tíma daglega. Nú eru Mosi, Kjammi og Hnoðri að verða það stórir að Guðbergur þarf að búa til stærra búr fyrir þá og ætlar í það fljótlega. Hann leyfir þeim að hlaupa aðeins frjálsum um garðinn á morgnana og eftir lokun svo þeir fái útrás.  Hann vill halda þeim og leyfa þeim að lifa en til þess þarf hann sérstakt leyfi sem við vonum auðvitað að hann fái.

Fylgist með Mosa og öllum hinum dýrunum á facebook.