Möguleg sameining Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar

Mögulega kosið um sameiningu í árslok 2020

0
306

Í kjölfar samþykkta sveitarstjórna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar um skipan samstarfsnefndar sem kanna skal ávinning af sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar, voru haldnir kynningarfundir í Skjólbrekku og Ljósvetningabúð í gær um mögulega sameiningu. Á fundunum var ferill verkefnisins kynntur og voru það þeir Róbert Ragnarsson og Jón Hrói Finnsson frá RRRáðgjöf sem sáu um kynninguna.

Þeir vörpuðu fram nokkrum spurningum til fundargesta sem birtust á tjaldi og gátu fundargestir og þeir sem heima sátu og fylgdust með beinni útsendingu á netinu, komið á framfæri sínum athugasemdum til mögulegrar sameiningar. Svör fundargesta við spurningunum birtust svo á tjaldinu sem fundargestir sendu úr sínum snjalltækjum.

Nokkuð skiptar skoðanir fundargesta komu fram og hafði fólk áhyggjur af því að ferlið yrði kannski ekki nógu opið og að mögulega yrði farið of hratt í sameininguna þar sem sumir töldu að það væri ekki búið að klára sameiningu Þingeyjarsveitar. Einnig hafði fólk áhyggjur af stærð sveitarfélagsins en það yrði um 12.000 ferkílómetrar að stærð, eða stærsta sveitarfélag landsins. Margir voru þó jákvæðir gagnvart sameining og töldu að þetta væri skref í rétta átt.

Mývetningar jákvæðari

Ef marka má svör fundargesta við síðustu spruningunni þar sem fundargestir gáfu einkunn frá 0 upp í 10 um hvort að sameina ætti sveitarfélögin, má ætla að sameining njóti meiri stuðnings í Skútustaðahreppi en í Þingeyjarsveit. Fundargestir í Þingeyjarsveit gáfu einkunnina 6,5 en fundargestir í Skjólbrekku gáfu einkunnina 8,2. Svörin endurspegluðu vilja um 10% íbúa í Skútustaðahreppi og um 5% íbúa í Þingeyjarsveit. Þetta var þó aðeins óformleg könnun á vilja þeirra sem sóttu fundina.

Fram kom á fundinum að sameiningarnefndin muni starfa áfram og halda reglulega kynningarfundi fyrir íbúanna. Stefnt er að því að stöðugreining, vinna við framtíðarsýn og tillaga um hvernig sameining sveitarfélaganna fari fram liggi fyrir í árslok 2020. Stefnt er að því að atkvæðagreiðsla fari fram á tímabilinu nóvember 2020 til mars 2021.

Frá fundinum í Ljósvetningabúð í gær.