Millilandaflug í Aðaldal – Augljós kostur

0
711

Í fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga hefur nokkuð verið rætt um kosti Húsavíkurflugvallar (Aðaldalsflugvallar) umfram Akureyrarflugvallar í sambandi við beint flug til útlanda. Það hefur komið amk. tvisvar fyrir nú nýlega að lenda hafi þurft á Keflavíkurflugvelli við heimkomu þegar til stóð að lenda á Akureyrarflugvelli, vegna verðurskilyrða, eða þá að óvanir flugmenn þorðu ekki að lenda á Akureyrarflugvelli. Afleiðingar af þessum breytingum á lendingarstað höfðu í för með sér mikla fyrirhöfn og tafir fyrir farþeganna sem allir áttu heima á norðurlandi og ætluðu að nýta sér þægindi þess að þurfa ekki að keyra allar leið suður til Keflavíkur til þess eins að komast í frí erlendis. Í framhaldi af þessu hafa eðlilega vaknað upp spurningar um hvort ekki væri nær að horfa til Húsavíkurflugvallar sem betri kost fyrir beint millilandaflug fyrir Norðlendinga.

Aðaldalsflugvöllur 2
Frá Húsavíkurflugvelli

Amk. einn bæjarfulltrúi á Akureyri hefur velt þessari spurningu upp og er það fagnaðarefni þegar Akureyringar sjálfir eru farnir að sjá það sem augljóst hefur verið í augum okkar þingeyinga lengi, að Húsvíkurflugvöllur er einfaldlega mun betri kostur fyrir millilandaflug heldur en Akureyrarflugvöllur. Fyrir því eru nokkrar ástæður.

Svipaður aksturstími og til Keflavíkur

Með tilkomu Vaðlaheiðarganga verður aksturstími frá Akureyri til Húsavíkurflugvallar innan við 40 mínútur sem er svipaður og aksturstíminn er fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu til Keflavíkur. Þar fyrir utan verður aksturstíminn fyrir Þingeyinga sjálfa til Húsavíkurflugvallar í flestum tilfellum mun styttri en það og í mörgum tilfellum styttri eða svipaður og aksturtíminn er til Akureyrarflugvallar.

Auðvelt að lengja brautina og engin há fjöll í næsta nágrenni

Það er tiltölulega auðvelt að lengja Húsavíkurflugvöll í báða enda. Völlurinn stendur í Aðaldalshrauni og nóg pláss fyrir báðum endum til lengingar og engar byggingar fyrir. Núverandi þjóðvegur sem liggur við norðurenda brautarinnar væri hægt að leggja í stokk undir brautina. Stærsta vandamál Akureyrarflugvallar er staðsetning hans í þröngum Eyjafirðinum. Sama hvað gert er við þann völl að þá lækka fjöllin sem umkringja hann ekkert, segir Friðrik Sigurðsson forseti sveitarstjórnar Norðurþings og flugrekstarfræðings í viðtali á Hringbraut.is í morgun. Það er langt í há fjöll í nágrenni Húsavíkurflugvallar og lágar heiðar í nágrenni hans ættu ekki að vera til vandræða í aðflugi fyrir stórar flugvélar.

Svo eru veðurfarsleg skilyrði betri við Húsavíkurflugvöll en Akureyrarflugvöll. það er bara þannig.

Fjölgun ferðamanna mun sennilega halda áfram og með beinu flugi á Húsavíkurflugvöll væri það hagfellt fyrir ferðaþjónustuna í Þingeyjarsýslu. Það er stutt þaðan til allra helstu náttúrperla sem Þingeyjarsýsla býður upp á. Það hlýtur því að vera hagstætt fyrir alla að opna á fleiri möguleika fyrir ferðamenn að komast til landsins og Norðlendinga að komast til útlanda. Ekki stóla bara Keflavík og stundum Akureyri og Egilsstaði.

Meira öryggi

Megin máli skiptir þó að notendur beina flugsins séu nokkuð öruggir um og geti treyst því, að hægt sé að lenda á sama stað og tekið var á loft frá og líkurnar eru mun meiri ef upphafspunkturinn er Húsavíkurflugvöllur heldur en Akureyrarflugvöllur.

Markaðssetning á beinu flugi til útlanda, hvort heldur sem er frá Akureyri eða verður mögulega einhverntíma í framtíðinni frá Húsavík er aldrei auðveld, en ef fólk getur ekki treyst því að geta lent á Akureyri við heimkomu hlýtur það að draga úr eftirspurn eftir þessum ferðum. Ef fólk telur líkur á að þurfa kanski að sitja í marga klukkutíma í rútu frá Keflavík um miðja nótt virkar það ekki hvetjandi á þessar ferðir. Það er einmitt ferðalagið til og frá Keflavík sem farþegarnir eru að spara sér með því að fljúga beint frá Akureyri.

Það hlýtur að vera auðveldara að markaðssetja beint flug frá Húsavíkurflugvelli og sannfæra áhugasöm flugfélög um það sem betri kost þegar mun meiri líkur eru á því að hægt sé lenda á vellinum við heimkomuna. Það segir sig sjálft.

Hverju þarf að breyta ?

Beint flug frá Húsavíkurvelli er þó ekki raunhæfur kostur í dag og til þess skortir ýmislegt. Lengja þarf flugbrautina svo að hún nái 2300 metrum, en í dag er brautin 1600 metrar. Bæta þarf búnað við Húsavíkurflugvöll til þess að beint millilandaflug um völlinn geti orðið að veruleika. Bent hefur verið á það að það skorti burðarþolsmat fyrir Húsavíkurflugvöll og því ekki ljóst hvernig hann þolir stórar flugvélar. Úr því þarf að bæta. Líklega þyrfti að stækka flugstöðina eða byggja nýja, svo hún gæti nýtts gagnvart vegabréfaeftirliti, vopnaleit og aðskilnaði farþega. Svo þyrfti að tryggja aðgengi að þotueldsneyti svo að eitthvað sé nefnt.

Í frétt Hringbrautar frá því i morgun bendir Friðrik Sigurðsson á að mögulegt væri að byggja sérstaka flugstöð fyrir millilandaflug við suð-vestur enda Húsavíkurflugvallar. Sú flugstöð yrði staðsett innan sveitarfélagsmarka Þingeyjarsveitar og spurning hvort sveitarstjórnafólk í Þingeyjarsveit ætti ekki að skoða þessa hugmynd nánar ásamt kollegum sínum í Norðurþingi.

 

Svo þarf líka pólitískan vilja til að gera þetta og kanski er það einmitt lang stærsta fyrirstaðan.

Hermann Aðalsteinsson ritstjóri.