Messa á Þönglabakka

0
727

Messað verður á Þönglabakka í Fjörðum sunnudaginn 28. júlí klukkan tvö eftir hádegi. Kleinukaffi eftir messu.

Þönglabakkakirkja er ósýnileg kirkja. Þönglabakki er í Laufásprestakalli, en Þönglabakkakirkja var tekin ofan lýðveldishátíðarárið 1944, enda orðin þá næsta lúin og lítilfjörleg. Þá var engin byggð lengur í Fjörðum og sóknarbörnin öll flutt í aðrar sóknir.
Helgihald á Þönglabakka var endurvakið sumarið 2007 þegar sr. Jón Helgi Þórarinsson hafði þar morgunmessu með gönguhóp sem gisti staðinn.

Þönglabakki. Mynd frá séra Bolla P. Bollasyni.

Ári síðar var sungin messa sunnudaginn 27. júlí 2008. 160 sóttu þá messu. Þá var ákveðið að messað skyldi ár hvert síðasta sunnudag í júlí. Nú er tólfta árið.

Til að sækja þessa messu er ekið í áttina til Grenivíkur þangað til komið er að hliði norðan við Grýtubakka skammt sunnan við brúna yfir Gljúfurá og þaðan sem leið liggur um Leirdalsheiði allt í Hvalvatnsfjörð að bílastæði skammt frá Kaðalstöðum. Þetta er fyrst og fremst jeppavegur. Úr Hvalvatnsfirði er gengið yfir göngubrú móts við Tindriðastaði í Þorgeirsfjörð að Þönglabakka. Reikna má með því að akstur og ganga taki samtals um það bil tvær klukkustundir. Leiðinni er vel lýst hér : http://www.ferdafjordungur.is/index.php?act=menu&act_id=438

Þau sem velja áreynsluminni ferð geta fengið far með Húna II. Báturinn leggur af stað frá Akureyri klukkan átta um morguninn, en frá Grenivík klukkan tíu.

Far með Húna II kostar 2500 krónur á mann, hvort sem farið er aðra leið eða báðar. Ekki er pláss nema fyrir 70 farþega og því er rétt að panta far tímanlega í síma Húna 8484864 eða senda tölvupóst á netfangið steinipé @simnet.is.

Kristján Valur Ingólfsson, biskup , Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir og Sindri Geir Óskarsson guðfræðingur þjóna í messunni. Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, Margrét Bóasdóttir, stýrir söng. Einsöng syngur Benedikt Kristjánsson, Gunnar Sigfússon leikur á trompet. Undir sálmasöng verður leikið á fótstigið ferðaharmoníum.