Menntaþankar

0
153

Í nýlegu viðtali segir Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri : „ Í átökum er alltaf um tvennt að velja; að slást eða tala saman. Að tala saman tekur oft lengri tíma og það þarf að kunna það, að slást er oft fljótvirkara og virðist árangursríkara en það er svo mikil skammtímalausn og mun dýrara til lengri tíma litið.“ Orð hans gætu átt við margt sem nú fer fram hérlendis, jafnvel skólamál Þingeyjarsveitar.

Ari Teitsson
Ari Teitsson

Fáir efast um gildi menntunar og því eru möguleikar til fræðslu og þroska frá tveggja til átján ára aldurs stór hluti af lífsgæðum hvers sveitarfélags og  væntanlega mjög ráðandi þegar fólk velur sér búsetu. Íbúar Þingeyjarsveitar eru svo lánsamir að haf innan sinna sveitarmarka öll skólastig að háskóla, en vegna dreifðrar byggðar og takmarkaðra fjármuna þarf að huga vel að hvernig við nýtum best þá aðstöðu og möguleika sem fyrir hendi eru. Miklu varðar hvernig til tekst því þróun sveitarfélagsins gæti verið í húfi.

 

 

Á nýafstöðnum sveitarfundi í Ýdölum voru lagðar fram þrjár skýrslur varðandi skólamál sveitarfélagsins og þar komu fram ýmsar athygliverðar upplýsingar.(Skýrslurnar má finna á heimasíðu Þingeyjarsveitar).

Af skýrslu Haraldar Líndal má ætla að ekki sé gætt nægs aðhalds í rekstri Þingeyjarskóla og árlega megi spara þar mikla fjármuni án breytinga á staðsetningu skólastarfs. Ekki voru birtar sambærilegar tölur um rekstur Stórutjarnarskóla en þar til þær verða lagðar fram verður að gera ráð fyrir rekstur sé með svipuðum hætti þar.

Í skýrslu Bjarna Þórs Einarssonar kom mest á óvart mat hans á ástandi Hafralækjarskóla. Viðhaldskostnaður af stærðargráðunni 250 – 450 milljónir á næstu árum er svo þungur baggi að leggja á Þingeyjarsveit  að slíkt verður varla gert nema að undangenginni nákvæmri skoðun á öðrum valkostum og ítarlegri umræðu meðal íbúanna. Þá vekur mat hans á byggingarkostnaði nýbygginga  spurningar m.a. hvort byggingarkostnaður skólahúsnæðis þurfi að vera hærri en við íbúðarbyggingar.  Sé byggingarkostnaður á fermeter 450 þús. kostar nýtt 160 fermetra íbúðarhús 72 milljónir, sem virðist óraunhæft í okkar samfélagi. Ætla má að flestir íbúar Þingeyjarsveitar standa ekki undir byggingarkostnaði umfram 300 þús á femeter og gildir það væntanlega bæði um íbúðarhúsnæði og skólahúsnæði.

Margt athyglivert kom einnig fram í skýrslu Ingvars Sigurgeirssonar, ekki síst að hann bendir raunar á eftirtalda 8 valkosti í framtíðarskipan skólastarfs í Þingeyjarsveit án þess að taka beina afstöðu til þeirra (bls. 8 – 13 í skýrslu hans):

  • Grunnskólstig Þingeyjarskóla á Hafralæk
  • Grunnskólastig Þingeyjarskóla á Laugum
  • Óbreytt skipan
  • Grunnskólinn á Stórutjörnum
  • Yngri börn á Hafralæk en unglingastigið á Laugum
  • Leikskóli og kennsla yngstu grunnskólabarna á Hafralæk, Laugum og Stórutjörnum, en öllum unglingum kennt á Laugum.
  • Grunnskólastigið verði fyrst á Hafralæk en strax gert ráð fyrir að það færist í Laugar
  • Allt grunnskólastarf í sveitarfélaginu á Laugum.

Af framansögðu má ljós vera að val um framtíðarskipan skólaþjónustu Þingeyjarsveitar er ekki einfalt, enda þarf einnig að íhuga hvernig tengja má betur akstur  ungmenna frá tveggja til átján ára aldurs og auðvelda þannig aðgengi að leikskólum og Framhaldsskólanum á Laugum. Þá þarf einnig að huga að auknum tengslum skólastafs grunnskóla og framhaldsskóla í ljósi fyrirsjánlegra breytinga í rekstri Framhaldsskólans á Laugum.

Að efna við þessar aðstæður til spurningakeppni um tæplega einn valkost af a.m.k. átta virðist því í besta falli óskynsamlegt. Væri ekki nær að fara að þeim ráðum borgarstjórans fyrrverandi sem getið er hér í upphafi ?

Ari Teitsson.