Matthildarstofa opnuð í Húsmæðraskólanum á Laugum

0
236

Minningarstofa um litunarstarf Matthildar Halldórsdóttur frá Garði í Aðaldal var opnuð í Húsamæðraskólanum á Laugum s.l. laugardag. Fjöldi gesta sótti skólann heim af því tilefni. Matthildur varð þekkt fyrir jurtalitað band sem m.a. hélt starfsemi kvennaskólanna gangandi á kreppuárunum. Þá fékkst ekki innflutt vefnaðar- eða útsaumsgarn en Matthildur litaði ógrynni af bandi líklega um 200 kg. á ári þegar mest var og hafði samt ekki undan pöntunum frá kvenna- unglinga- og barnaskólum. Það má því örugglega finna bandið hennar í útsaumi og vefnaði víða um land.

Frá opnun Matthildarstofu. Mynd: Mjöll Matthíasdóttir
Frá opnun Matthildarstofu. Mynd: Mjöll Matthíasdóttir

Litaða ullarbandið hennar vakti snemma athygli. Hún hlaut verðlaun fyrir það á heimilisiðnaðarsýningunni árið 1921 og 1939 fékk hún fjárstyrk frá Alþingi sem hún nýtti til að koma upp sérstökum litunarklefa við heimili sitt. Árið 1944 samdi hún lítið kver með leiðbeiningum um litun og í nokkur sumur kenndi hún litun á heimili sínu.

 

 

Þá var hún í forgrunni í heimildarmynd sem Ósvaldur Knudsen gerði um miðja síðustu öld og nefnist “Ullarband og jurtalitun”

Af móður sinni lærði Matthildur fyrstu handtökin við litunina. Þær notuðu mosa, sortulyng og börk af birki. Hún hafði frá unga aldri yndi af litum og sagðist hvergi hafa séð fjölbreyttari og fegurri liti en í fæðingarsveit sinni. Í formála að litunarkverinu segir Matthildur:

“Snemmma vaknaði hjá mér löngun til að handsama hina fögru liti, ná valdi yfir þeim og flytja þá inn í híbýli mannanna. Ég þráði að verða málari en þeirri þrá átti ég ekki kost á að fullnægja. Ég byrjaði ung að fást við útsaum. Fann ég þá oft að mig vantaði liti, til þess að ná þeim árangri, er ég gæti verið ánægð með.”

Veggteppi. Mynd: Mjöll Matthíasdóttir
Veggteppi. Mynd: Mjöll Matthíasdóttir

 

Hún hófst því handa og prófaði sig áfram með jurtir og aðferðir. Þetta var tímafrekt tilraunastarf en hún leit að það sem leik. Þannig náði hún fram ótrúlegum fjölda lita og blæbrigða sem nutu sín vel í útsaumi og vefnaði.
“Að nokkru leyti hefir því rætst draumur minn um að flytja eitthvað af litskrúði náttúrunna inn i híbýli mannanna.” ritaði Matthildur.

Í minningarstofunni í Húsmæðraskólanum eru varðveitt sýnishorn af á annað hundrað litbrigðua af ullargarni sem Matthildur Halldórsdóttir litaði, ásamt munum sem tengjast henni og litunarstarfinu.

Texti og myndir: Mjöll Matthíasdóttir.