Mat vísindamanna að eldgos sé ekki í gangi

0
86

Í tilkynningu sem Almannavarnir sendu frá sér nú kl 20:30 í kvöld segir, að það sé mat vísindamanna að eldgos sé ekki í gangi. Í dag kl. 11:20 sáust merki um óróa sem gáfu sterkar vísbendingar um að gos gæti verið að hefjast. Síðdegis dró úr óróanum, en öflug skjálftavirkni heldur áfram. Upp úr kl. 14 flaug flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF að Vatnajökli með sérfræðinga frá Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands ásamt fulltrúa Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra. 

ríkislögreglustjóri almannavarnir

Flogið var yfir Bárðarbungu, Dyngjujökul og Jökulsá á Fjöllum í góðu skyggni. Yfirborð jökulsins var grandskoðað m.a. með sérútbúinni ratsjá og hitamyndavél vélarinnar. Engin ummerki sáust um eldgos í Dyngjujökli eða Bárðarbungu, né ummerki um flóð við upptök Jökulsár. 

Flogið var yfir svæðið í nokkra klukkutíma og engar breytingar sáust á þeim tíma. Vegna stöðugrar áframhaldandi skjálftavirkni og gliðnunar hefur Veðurstofan ákveðið að litakóði fyrir flug verði áfram rauður. Sú ákvörðun verður endurmetin í fyrramálið. Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórana á Húsavík og Seyisfirði hefur ákveðið að áfram verði starfað á neyðarstigi og verður sú ákvörðun endurmetin eftir hádegi á morgun. 

Almannavarnir