Markaður hjá Grasrót um helgina

0
73

Um helgina, 7. og 8. desember, geta Akureyringar og gestir bæjarins komið á árlegan desembermarkað Grasrótar að Hjalteyrargötu 20. Þar verða opnar vinnustofur þar sem félagar í Grasrót kynna starfsemi sína og selja vörur auk þess sem framleiðendur annarsstaðar frá kynna og selja sínar vörur. Athugið að markaðurinn verður aðeins haldinn þessa einu helgi.

OLYMPUS DIGITAL CAMERAÁ boðstólum verður fjölbreytt handverk og hönnun úr beinum, hornum, steinum, járni, silfri, gleri, leir, ull og tré. Til dæmis má nefna skartgripi, endurskinsmerki, fatnað, vefnaðarvöru, töskur, púða, málverk, flöskur, bolla, föt, hnífa, kjöt, brauð, sultur, pestó, kökur, jólastjörnur, húfur, vettlinga og margt fleira.

Einnig geta gestir keypt vöfflur og kaffi en minnt er á að ekki eru allir söluaðilar með posa og því getur verið skynsamlegt að hafa með sér reiðufé.

Félagið Grasrót – skapandi samfélag var stofnað árið 2009 og hefur það hlutverk að vera vettvangur fyrir alla sem vilja koma saman og vinna að verkefnum á sviði nýsköpunar, lista, hönnunar, iðnaðar, þjónustu og menningar.

Félagið rekur miðstöð í húsi sem áður hýsti skrifstofur Slippsins og þar hafa nú hátt í 100 manns vinnuaðstöðu og þar þrífst fjölbreytileg starfsemi. Þar eru m.a. félagar í Flugmódelfélagi Akureyrar, Áhugaljósmyndaraklúbbi Akureyrar, myndlistarmenn, tónlistarfólk, hönnuðir, handverksfólk ýmiskonar og fólk með skrifstofuaðstöðu.

Allir geta orðið félagar í Grasrót og allir geta komið og fengið aðstöðu til lengri eða skemmri tíma séu verkefnin þess eðlis að falla að starfemi og markmiðum félagsins.