Margir vilja í Framsýn – Sjá hag sínum betur borgið hjá Framsýn

0
118

Á fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs Framsýnar-stéttarfélags í gær voru að venju teknar fyrir inngöngubeiðnir í félagið. Að þessu sinni voru þær óvenju margar en starfsemi félagins hefur töluvert verið til umræðu í fjölmiðlum undanfarið, ekki síst kjarabarátta félagsins. Þetta kemur fram á vef Framsýnar.

Þessar stúlkur una hag sínum vel hjá Framsýn. Mynd af vef félagsins.
Þessar stúlkur una hag sínum vel hjá Framsýn. Mynd af vef félagsins.

Margir vilja þakka Framsýn og þeim stéttarfélögum innan sambandsins sem börðust fyrir því að samningarnir yrðu felldir fyrir viðbótina sem fólk fær með sáttatillögu ríkissáttasemjara verði tillagan samþykkt. Greinilegt er að fólk víða um land kann vel að meta það sbr. áhugann fyrir því að ganga í félagið.

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar sagði í spjalli við 641.is í gær að það væru nú þegar óvenju margir félagsmenn starfandi utan félagssvæðisins og hann hefur orðið var við gríðarlegan áhuga fólks á því að ganga í félagið sem býr utan Þingeyjarsýslu. Hann fengi daglega símtöl þar sem fólk héðan og þaðan af landinu væri að spyrjast fyrir um mögulega aðild að Framsýn.

Þann 10. febrúar sl. samþykkti stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar að skoða hvort hægt sé að breyta lögum félagsins þannig að félagssvæðið verði landið allt. Það verður gert í samráði við lögmenn félagsins og síðan borið undir Alþýðusamband Íslands.

“Það eru bara tvö verkalýðsfélög sem berjast fyrir verkafólk í landinu, en það eru Framsýn og Verkalýðsfélag Akraness og fólk telur hag sínum best borgið hjá þeim,” sagði maður sem óskaði eftir aðild að Framsýn í gær.