Mannlífið í sveitinni

0
397

Það eru ekki allir farfuglar sem fljúga.

 

Á Gvendarstöðum í Kinn hefur sama ættin búið síðan í móðuharðindunum 1783. Nú býr þar Kristín Helgadóttir, dóttir Helga Jónassonar grasafræðings og Halldóru Jónsdóttur húsfreyju frá Fornastöðum.  Kristín er yngst átta systkina hin eru: Jórunn býr fyrir sunnan,  Oddur, Sæmundur, Forni, Rannveig, Ingi og Jónas eru öll látin.

Kristín er fædd 1. júní 1930, alinn upp á Gvendarstöðum og hefur alla tíð búið þar. Hún gekk tvö ár í Alþýðuskólann á Laugum og einn vetur í húsmæðraskólann. Eitt sumar vann hún í Gróðrarstöðinni á Akureyri ,,og það var nú skemmtileg vinna,, segir Kristín. Jónas og Kristín bjuggu lengi tvö heima ásamt Helga Gunnarssyni syni Kristínar, en hann er fyrir mörgum árum fluttur suður.

Kristín og úlfareynir
Kristín og úlfareynirinn

 

 

 

 

 

 

 

Alla tíð hefur verið mikill ræktunaáhugi hjá Gvendarstaðafólki. Við Gvendarstaði er mikill og fallegur trjá og blóma garður með margvíslegum plöntum í, þar má finna ripsber, sólber, jarðarber lítinn kartöflugarð og að sjálfsögðu rabbabara. Elsta plantan í garðinum er birkitré sem gróðursett var fyrir 1918, Helgi grasafræðingur kom með það heim, hann hafði sótt það í skóginn austan í hnjúknum gegnt Gvendarstöðum. Kristín hefur allatíð lagt mikla alúð í garðinn sinn og sinnir honum vel. Eftir að Jónas lést vorið 2006 gerðist Kristín farfugl. Á haustin fer hún suður yfir heiðar, alla leið til Keflavíkur og hefur vetursetur hjá vini sínum Gunnari Guðmundssyni húsasmíðameistara og trérennismið. í Keflavík lifir hún góðu menningarlífi, fer í leikhús, á tónleika, heimsækir vini og ættingja, en mest vinnur hún þó handavinnu og fer í gönguferðir. Hún kemur svo norður á vorin eins hver annar vorboði og brettir þá heldur betur upp ermarnar, því garðurinn bíður.

blómstrandi eldlilja
blómstrandi eldlilja

 

 

 

 

 

 

 

 

Garðurinn hennar Kristínar er einstakur. Að labba suðurfyrir hús og inn í garðinn, er eins og að labba inn í aðra og betri veröld. Þar er mikið skjól og friðsæld, þar heyrist fossaniður, fuglasöngurinn ómar og blómaskrúðið angar. Kristín hefur framundir þetta verið að planta nýjum tegundum og gera tilraunir, fyrir 4 – 5 árum fékk hún sér eplatré, það gaf að vísu aldrei ávöxt, það brotnaði í vetur eins og svo mörg önnur tré, í garðinum eru á milli 40 og 50 tegundir af trjám og runnum. Ég spurði Kristínu um uppáhalds blómið hennar, en hún var treg til að gera uppá milli, en sagði þó að hún væri mjög ánægð með Skáldrósina sína, sem hefur verið með 60 útsprungin blóm í einu. Fleira skemmtilegt er að skoða í garðinum en blóm og tré, þar er gamall hestasteinn, ,,hestasteinar áttu alltaf að standa beint fram af bæjardyrunum,, segir Kristín og þessi stóð gegnt bæjardyrunum á gamla bænum, einnig er steinn með, að öllum líkindum, manngerðri skál sem notuð var til að mylja korn.

steinninn með skálinni
steinninn með skálinni

 

 

 

 

 

 

 

Innanum blómin eru nokkrar postulínshænur og styttur, ein er af ungum dreng ,,þetta er hann Tumi litli, sem fer á fætur við fyrsta hanagal,, segir Kristín og brosir, hún hefur gaman af að segja sögur, sögur sem hún býr til sjálf, hún getur spunnið upp sögur og heillað börn með sér inní ævintýraheima.

Tumi litli og púddurnar
Tumi litli og púddurnar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er svo eitt af ljóðum Kristínar.

 

Hvar varst þú?

Hvar varst þú er fyrstur byggðir hér bæ sem ég bundið hef ást mína við,

þar sem ættfeður mínir í aldanna rás hafa unnað sér lið fram af lið.

Var það björkin á hólnum er benti þér heim, eða blærinn sem hvíslaði í mó,

var það fossinn í hlíðinni er heillaði mest er hann hörpuna sína sló.

 

Fagnandi bauð hún þér faðminn sinn þessi friðsæla elskaða jörð

silfurtær áin af silungi full í sveigum við mýri og börð,

og moldin var dökk og mjúk og hlý og máttug hver starfandi hönd

er bóndinn og konan og börnin smá, brutu sín fyrstu lönd.

 

Hvort var ekki gleði og söngur í sál um sumarsins heiðbjörtu kvöld

en beiðstu ekki líka með brennandi þrá að birtan tæki nú völd,

þegar skaflana lagði á skjái og dyr og skuggarnir brugðu á leik

og ljósið á týrunni logaði dauft á litlum  fífukveik.

 

Ég þakka þér ókunni ættfaðir minn þá órofa tryggð við það land

sem mig hefur alið og mig hefir glatt og mér hefir ofið það band

er mig hnýtir við landið við lauf  þess og mó, og lækinn sem hjalar svo kátt.

Hér átti ég sporin um æskunnar vor, hér enda ég lífið í sátt.

Kristín Helgadóttir.