Magnamenn frá Grenivík tryggðu sér í gærkvöld sæti í 2. deild karla í knattspyrnu að ári og um leið meistaratitil 3. deildar, þó þeir eigi enn þremur leikjum ólokið. Magni vann 1-0 sigur liði Kára í Akraneshöllinni á Akranesi. Lars Óli Jessen skoraði sigurmarkið strax á 2. mínútu. Fyrir Káramenn þýddi tapið að þeir eru nánast úr leik í slagnum um sæti í 2. deild og ljóst að Reynir úr Sandgerði og Völsungur frá Húsavík heyja einvígi um það í síðustu umferðunum. Frá þessu segir á mbl.is

Þorsteinn Þormóðsson formaður Magna sagðist í spjalli við 641.is vera himinlifandi með árangurinn. “Við erum enn taplausir í sumar. Við höfum unnið alla leiki nema tvo en þeir leikir enduðu með jafntefli. Svo er þetta líka frábær afmælisgjöf til okkar allra, því Magni heldur upp á 100 ára afmæli í ár”.
Lið Magna hefur fjórum sinnum áður spilað í 2 deild. Fyrst árið 1979 en þá voru deildirnar bara þrjár og Magni spilaði því í næst efstu deild það árið. Það er besti árangur Magna frá upphafi.
Magni spilaði í þriðju efstu deild sem er eins og 2.deild í dag frá 1991-1993 eftir að hafa unnið 4. deildinna árið 1990 án þess að tapa leik. Lið Magna spilaði svo í 2. deild keppnistímabilin 2007 og 2008 sem er þriðja efsta deild líkt og nú.
Næsti leikur Magna er gegn Völsungi frá Húsavík nk. þriðjudag á Grenivík og sagðist Þorsteinn reikna með hörkleik og mörgum áhorfendum. Völsungar eiga í baráttu um 2. sætið í deildinni við Reyni frá Sandgerði og þurfa nauðsynlega á sigri að halda til að komast upp um deild. “Við ætlum ekki að gefa neitt eftir í þeim leik þó svo að við séum búnir að tryggja okkur upp” sagði Þorsteinn. Völsungar eiga harma að hefna frá því í fyrri leiknum í sumar en Magni vann fyrri leikinn á Húsavík 3-0.
Margir reyndir leikmenn eru í liði Magna í ár, þar á meðal Orri Freyr Hjaltalín, sem er markahæstur Magnamanna í deildinni með 8 mörk, Atli Jens Albertsson og Andrés Vilhjálmsson sem allir hafa talsverða reynslu úr efstu deild.
Þjálfari Magna er markvörðurinn gamalreyndi Atli Már Rúnarsson frá Akureyri, bróðir Arons Einars Gunnarssonar landsliðsfyrirliða í fótbolta og Arnórs Þórs Gunnassonar landsliðsmanns í handbolta, en Atli hefur þjálfað lið Magna undanfarin ár. mbl.is