Mælt með því að starfssemi Þingeyjarskóla verði á einni starfsstöð

0
57

Í morgun voru birtar á heimasíðu Þingeyjarsveitar skýrslur aðila sem sveitarstjórn Þingeyjarsveitar gekk til samninga við um framtíðarskipulag Þingeyjarskóla. Þetta eru skýrslur frá: HLH ehf., (Haraldur Líndal Haraldsson) um rekstur og framtíðarskipulag Þingeyjarskóla. Ráðbarður sf., (Bjarni Þór Einarsson) um viðhalds- og rýmisþörf Þingeyjarskóla og Skólastofan slf.,(Ingvar Sigurgeirsson) um skólaskipan Þingeyjarskóla. Helstu niðurstöðurnar eru þær að mælt er með því að starfssemi þingeyjarskóla verði á einni starfsstöð, en ekki á tveimur eins og nú er.

logo Þingeyjarsveit

 

Í lokaorðum skýrslu Haraldar L Haraldssonar hagfræðings, þingeyjarskóli – Rekstur og framtíðarskipulag, kemur eftirfarandi fram: 

Það er mat skýrsluhöfundar eftir yfirferð á rekstri Þingeyjarskóla að hægt sé að draga nokkuð úr kostnaði við rekstur skólans miðað við óbreytt fyrirkomulag. Þetta á að vera hægt að gera án þess að það komi niður á skólastarfinu. Hins vegar er það niðurstaða skýrsluhöfundar að margt mæli með því að allt skólahald
Þingeyjarskóla fari fram í sama húsnæðinu og þá annað hvort á Hafralæk eða Litlulaugum.

Verði ákveðið að hafa allt skólahald á einum stað er ljóst að veruleg peningaleg hagræðing myndi nást með því. Jafnframt er það mat skýrsluhöfundar að það muni gera góðan skóla enn betri. Gera má ráð fyrir að bæta megi kennsluna, m.a. með því að verja fjármunum til annars í skólahaldinu en til reksturs. Má í því sambandi t.d. nefna kaup á fartölvum fyrir nemendur og kennara.

Það er jafnframt mat skýrsluhöfundar, verði tekin ákvörðun um að reka skólann á einum stað, eigi að reka áfram leikskóla þar sem grunnskólastarfsemin verður ekki. Leggja ber áherslu á að til þess að samrekstur grunn-, leik- og tónlistarskóla gangi sem best þarf öll starfsemin að vera í sama húsnæði.

Verði þetta niðurstaðan leggur skýrsluhöfundur til að rekinn verði sjálfstæður leikskóli þar sem sameiginlegt skólahald fer ekki fram, þ.e. annað hvort á Hafralæk eða Litlulaugum. Leikskólinn þar verði þá rekinn sem sjálfstæð eining með leikskólastjóra.

Í lokaorðum skýrslu Ingvar Sigurgerissonar um skólaskipan Þingeyjarskóla, kemur eftirfarandi fram.

Mat langflestra viðmælenda var að skynsamlegt sé að færa grunnskólastarfið á einn stað. Mat ráðgjafa er að flest fagleg rök hnígi að því. Meginvandkvæðin við þá ráðstöfun er að skólaakstur sumra barnanna lengist. Miklu varðar að vel sé staðið að akstrinum. Reynsla ráðgjafa er að skólaakstur getur verið með ýmsu móti, allt frá því að vera börnum kvalræði til þess að vera helsta tillhlökkunarstund dagsins.

Það eru vissulega vandkvæði að ekki munu allir starfsmenn fá starf við sameinaðan skóla, en vandséð er hvernig hægt er að láta það ráða niðurstöðu. Um þetta voru flestir viðmælendur sammála. Litlar líkur eru á að þeir starfsmenn, sem ekki fá ráðningu, geti ekki ráðið sig annað. En atvinnumissir er alltaf mjög sár og í þessu tilviki tengist hann einnig búsetu. Þessar aðstæður valda því meðan annars að miklar tilfinningar eru í umræðunni og oft erfitt að henda reiður á rökum.

Mjög erfitt er að vega faglega þau rök sem fram hafa komið með og á móti þeim tveimur stöðum sem til greina koma, Hafralæk og Laugum. Mat ráðgjafa er að sveitarfélagið hafi í raun val um tvo góða kosti. Annar kosturinn, Hafralækur, er líklega fjárhagslega betri. Fjárhagslegan ávinning mætti a.m.k. að einhverju leyti nýta í þágu skólans. Þá verður að benda á að margvíslegar mótvægisaðferðir koma til greina til að vega á móti þeim annmörkum sem kunna að vera á því að fara þessa leið. Í því sambandi má nefna samstarf við Framhaldsskólann – það getur orðið mikið og gott þótt lengra verði á milli – standi vilji til þess.

Verði niðurstaðan að hafa grunnskólann á Laugum þarf að gera þar umfangsmiklar og líklega kostnaðarsamar ráðstafanir. Áhugaverðar og kostnaðarminni lausnir gætu þó falist í auknu og beinu samstarfi við Framhaldsskólann gæfu starfsmenn hans og menntamálaráðuneytið kost á því. Líkur eru á því að í framtíðinni taki sveitarfélög yfir rekstur framhaldsskóla og í þessu gætu legið sóknarfæri. Vel má hugsa sér þróunarverkefni þar sem stefnt er að stórauknu samstarfi grunn- og framhaldsskóla og samfellu í námi

Í skýrslu Bjarna Þórs Einarssonar byggingatæknifræðings, (Ráðbarður Sf.)- Um rýmis og viðhaldsþörf Þingeyjarskóla, kemur eftirfarandi fram:

Kennslurýmið í kennsluálmu Hafralækjarskóla er samtals um 1070 m2 og er því nægilegt fyrir allt að 100 nemendur skv. viðmiðunarreglum Reykjavíkur. Flytja mætti nemendur Litlulaugaskóla í Hafralæk án verulegra breytinga.

Hafralækjarskóli er byggður nánast án steyptra innveggja nema í kjallara kennsluálmu. Þetta hefur það í för með sér að auðvelt er að breyta innra skipulagi vegna breyttrar notkunar húsnæðisins. Húsið er þrjár hæðir, hálfniðurgrafinn kjallari, fyrsta og önnur hæð. Engin lyfta er í húsinu. Húsið er byggt árið 1969 og er nú komið í verulega viðhaldsþörf.

Það er illa einangrað miðað við nútíma kröfur. 1“ frauðplast og 2“ glerull, og allar veggklæðningar, bæði innra borð ómúraðra útveggja og innveggir, eru spónaplötur, þ.e. klæðning í flokki 2. Þar af leiðandi er eldvörnum ábótavant. Töluverðar rakaskemmdir eru í húsinu, mest í kennsluálmu, vegna leka. Lekann tekst vonandi að gera við nú í haust með nýjum þakdúk í stað þakpappa og viðgerð á þakniðurföll. Í húsinu er stórt aflagt loftræstikerfi og er húsið nú hitað með þilofnum og tengt hitaveitu frá borholu á staðnum. Húsið er nýlega málað að utan og lítur þokkalega út. Þrjár stórar fellihurðir milli kennslustofa eru ónýtar. Síkar hurðir eru dýrar og er valkostur að byggja létta veggi milli kennslustofa í þeirra stað.

Matsalur og eldhús eru í þokkalegu ástandi. Gluggar í steyptum veggjum hafa verið þéttir að utan, gler og glerlistar endurnýjaðir að mestu leyti. Nokkrar rúður eru með raka á milli glerja og flestar rúður í þjónusturými sundlaugarinnar eru ónýtar. Útveggir efri hæðar kennsluálmu eru glerjaðir og spjaldlokaðir gluggakarmar. Ástand glers og pósta er þokkalegt. Þetta eru veikbyggðir og illa einangraðir veggir sem erfitt er að halda vatnsþéttum enda eru rakaskemmdir víða. Við suðurenda kennsluálmu er sundlaug sem er nánast ónýt.

Húsnæði Litlulaugaskóla er samtals um 753 m2 og dugir því fyrir allt að 68 nemendur skv. viðmiðunarreglum Reykjavíkur. Byggja þarf við húsnæðið ef nemendur sem nú eru í Hafralækjarskóla verða fluttir að Litlulaugum. Almennar kennslustofur í húsinu eru 5, þar af tvær í hálfniðurgröfnum kjallara með 2,3m lofthæð. Þær uppfylla því ekki lágmarksgildi núgildandi laga og reglugerða.

Litlulaugaskóli er byggður árið 1969 og er í góðu ástandi og vel við haldið. Húsið er þrjár hæðir, hálfniðurgrafinn kjallari, fyrsta og önnur hæð. Lofthæð í kjallara hússins er 2,3 m sem uppfyllir ekki núverandi skilyrði byggingarreglugerðar um skólahúsnæði, þó það sé notað í dag án vandræða. Tvö stigahús eru í húsinu. Gengið er inn á fyrstu hæð hússins upp átta tröppur á tveimur stöðum og bakdyrainngangur er í kjallara. Upphaflega hefur upphitun hússins verið með loftræstikerfi. Það hefur nú verið aflagt og er húsið hitað með þilofnum og tengt hitaveitu staðarins. Engin lyfta er í húsinu. Af þessari lýsingu má sjá að húsið hentar ekki vel sem skólahúsnæði m.a. vegna aðgengismál, en hentar hinsvegar nokkuð vel til að breyta því í íbúðir.

 

“Til skamms tíma er hægt að flytja núverandi skólastarf á Litlulaugum í Hafralækjarskóla án mikilla breytinga því plássið er yfirdrifið. Það er að því tilskyldu að það takist að koma í veg fyrir þau lekavandamál sem hafa verið til staðar með þeim viðgerðum sem nú standa yfir”, segir Bjarni í skýrslunni. Bjarni birtir í skýrslu sinni grófa áætlun um viðhald á Hafralækjarskóla til skamms tíma, sem hann telur að muni kosta 16,6 milljónir króna, en viðhald til lengri tíma metur hann að muni kosta 477 milljónir króna.

Bjarni nefnir það einnig af ef núverandi skólastarf á Hafralæk væri flutt í Litlulaugaskóla þyrfti stærra húsnæði en núverandi skólahús að Litlulaugum. Hann nefnir tvo valkosti á viðbyggingu við Litlulaugaskóla. Að byggja tengibyggingu milli núverandi skólahúss og leikskóla og þriggja hæða viðbyggingu norðan og austan við skólahúsið. Hinn valkosturinn er að byggja þriggja hæða viðbyggingu við suðurenda núverandi skólahúss með fullri lofthæð á neðstu hæðinni.

Áætlaður heildarkostnaður af þessum viðbyggingum telur Bjarni vera af stærðargráðunni 250 – 300 m.kr og nefnir að með slíkri viðbyggingu yrði nægilegt húsnæði fyrir nemendur Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla á Litlulaugum.

 

Í lok skýrslunnar varpar Bjarni fram tillögum sem hann telur umhugsunarverðar. Þær eru að, flytja starfsemi Litlulaugaskóla í Hafralæk án mikilla breytinga og breyta skólahúsinu á Litlulaugum í fjórar til sex íbúðir í kjölfarið. Eða, selja Hafralækjarskóla og byggja nýjan grunnskóla á Laugum fyrir alla nemendur í sveitarfélaginu.

Bjarni metur kostnað við að byggja nýtt 1700 m2 skólahús fyrir 150 nemendur um 765 m.kr. Þá miðar hann við að byggingarkostnað við nýbyggingu grunnskóla sé kr. 450.000,- á m2 í Þingeyjarsveit.

 

Opinn íbúafundur vegna framtíðarskipulags Þingeyjarskóla verður haldinn í Ýdölum þriðjudaginn 28. október kl. 20:30. Á fundinum verður fjallað um skýrslurnar og skýrsluhöfundar munu gera grein fyrir þeim, vinnu og niðurstöðum og í framhaldinu verða fyrirspurnir og umræður.  Þá munu kjörnir fulltrúar í sveitarstjórn einnig sitja fyrir svörum ásamt Guðjóni Bragasyni sviðsstjóra lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Í Tilkynningu frá sveitarstjóra Þingeyjarsveitar eru íbúar hvattir til þess að kynna sér skýrslurnar sem og að mæta á fundinn. 

 

Hér fyrir neðan má lesa allar skýrslurnar og viðaukanna.

Skýrsla um rekstur og framtíðarskipulag Þingeyjarskóla – HLH ehf

Skýrsla um skólaskipan Þingeyjarskóla – Skólastofan slf.

Skýrsla um viðhalds- og rýmisþörf Þingeyjarskóla – Ráðbarður sf.