Maður veit eiginlega ekki sitt rjúkandi ráð – 15-20% íbúa í sýslunni verða fyrir beinum áhrifum

Sorglegast er að ráðamenn hafi engan áhuga á að leggja okkur lið

0
3524

Maður eiginlega veit ekki sitt rjúkandi ráð og ekkert annað ábyrgt hægt að segja annað en að menn verði að búa sig undir að það harni verulega á dalnum og greinilegt að stjórnvöld hafa engan áhuga á að hjálpa okkur í þessari stöðu. Og það eitt og sér er verulegt áhyggjuefni”, sagði Sigurður Þór Guðmundsson sauðfjárbóndi í Holti í Laxárdal við Þistilfjörð, í spjalli við 641.is í morgun.

“Mér sýnist fljótt á litið að á milli 15-20% íbúa Norður-Þingeyjarsýslu verði fyrir beinum áhrifum þesssa. En líklega skiptum við þjóðarbúið ekki máli því má hunsa okkur eins og mér sýnist ráðherrar þessarar ríkisstjórnar ætli sér að gera”.

Sigurður Þór sem er formaður Búnaðarsambands Norður-Þingeyinga og oddviti Svalbarðshrepps, sagðist bara ætla að þrauka, með hverjum þeim ráðum sem hann finnur.

“Því ég veit að ég er góður bóndi og get allt, eins og svo mörg starfssystkyni mín, það koma alltaf einhver ráð”.

Holt í Laxárdal við Þistilfjörð

Sigurður Þór og Hildur Stefánsdóttir kona hans búa með um 400 kindur í Holti og sagðist Sigurður eiga von á að fækka um c.a 8-12% í sínum bústofni.

“Ég þori ekki að spá fyrir hvað aðrir bændur geri, en tel ekki ólíklegt að þeir hugsi á svipuðum nótum”.

“Sorglegast í þessu öllu finnst mér, að upplifa það á eigin skinni hvað það er greinilegt að þau ráðuneyti sem fara með okkar mál, þ.e. bæði landbúnað og byggðarmál hafa svo greinilega engan áhuga á því að setja sig inní okkar stöðu og skilja hana, hvað þá að þau hafi einhvert raunverulegan áhuga á að leggja okkur lið við að lifa af og búa allt þetta land. Við erum greinilega ekki partur af þeirra Íslandi”.