Lýðskrum Jóns Steinars

0
112

Lögfræðingurinn Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar litla grein í Mogga þann 5. mars síðastliðinn. Að því er virðist er hún skrifuð til varnar verðtryggingunni, þó hvergi sé á hana minnst í greininni. Lögfræðingurinn kýs að tala um peningalán landsmanna eins og hin íslenska kostnaðarverðs verðtrygging fjárskuldbindinga sé bara ekki til. Þar af leiðandi verður málflutningur hans mjög villandi og rökleiðslan hæpin í meira lagi. Ég ætla að renna aðeins yfir tölusettar staðhæfingar Lögfræðingsins.

Gílsi Sigurðsson
Gísli Sigurðsson

1. „Eðlilegt er að menn megi semja sín á milli um endurgreiðslukjör á peningalánum“ segir Lögfræðingurinn. Eflaust geta flestir tekið undir þetta. Samt er það nú svo að í gildi eru ótal lög um það hvernig frjálsir samningar milli manna skuli vera, og ekki vera. Til dæmis víxillög, landskiptalög, lög um neytendalán, lög um samningsgerð, ýmis lög um kjarasamninga, ýmis lög um starfsemi fjármálastofnana, lög um verðtryggingu, og svo framvegis nánast út í það óendanlega. Þessum lögum er meðal annars ætlað að tryggja að samningar milli manna séu sanngjarnir og engum til skaða. Þeim er meðal annars ætlað að koma í veg fyrir að fjármagnsvaldið níðist á hinum almenna lánþega.

Þetta veit Lögfræðingurinn, þó hann hafi valið að gleyma því rétt á meðan hann skrifaði greinina.

2. Lögfræðingurinn telur eðlilegt að sá sem lánar peninga vilji fá jafnvirði lánsins til baka, auk vaxta. Þá kemur að þessu með virðið. Það er ekki hægt að tryggja virði nokkurs hlutar, allra síst peninga. Ef þú kaupir hús þá verður þú sjálfur að taka áhættuna af því að húsið kunni að falla í verði, enginn getur tryggt þér að húsið haldi sínu virði. Ef þú lánar öðrum peninga þá getur enginn tryggt þér að þú fáir peningana til baka, alla eða með vöxtum. Þú tekur sjálfur áhættuna. Margir telja að virði gulls sé „gulltryggt“, en jafnvel gull á það til að falla í verði. Og þó að lánveitandinn „vilji“ tryggja virði lánsins, þá getur hann eins og aðrir orðið að sætta sig við að fá ekki allt sem hann vill. Að ætla lántaka einum að tryggja að lánið haldi virði sínu hvað sem á dynur er fráleit og fullkomlega ósanngjörn krafa. Lögfræðingurinn telur að án verðtryggingar muni enginn lengur fást til að lána peninga. Ég hef engar áhyggjur af því að án verðtryggingar muni eigendur peninga hætta að lána peninga. Þeir hafa enga aðra leið til að ávaxta peningana sína en að lána þá með einhverjum hætti. Munum að lánþegar eru lánveitendum ekki síður mikilvægir en lánveitendur lánþegum.

3. Fólk sem tekið hefur lán, vill greiða sín lán til baka. Þannig er það að minnsta kosti með það fólk sem ég umgengst, þó á þessu kunni að vera einstaka undantekningar. Ég þekki reyndar fáa lögfræðinga.

4. Sú barátta sem nú stendur fyrir því að höfuðstóll verðtryggðra lána verði lækkaður, snýst ekki um niðurfellingu heldur leiðréttingu. Það er rétt hjá Lögfræðingnum að peningar detta ekki af himnum ofan. Það á bæði við þá peninga sem verðtryggingin bætir við höfuðstól lána og þá peninga sem verðtryggingin bætir við innistæður fjármagnseigenda. Einhver þarf að borga. Í núverandi kerfi eru það skuldarar einir sem eru látnir borga. Hver treystir sér til að kalla það réttlæti? Hér varð hrun. Gríðarlegum verðmætum var rænt frá þjóðinni. Ég skil ekki að nokkur skuli telja það réttlátt að þeir sem áttu peninga haldi öllu sínu auk verðbóta og vaxta ofan á allt saman, en þeir sem skulduðu þegar áfallið reið yfir skuli einir bera tjón allra. Lögfræðingurinn ætti að geta skilið þetta.

5. Lögfræðingurinn spyr hver eigi að greiða kostnaðinn af leiðréttingunni. Þá spyr ég á móti hver hafi fengið peningana sem búið er að bæta við höfuðstól lána landsmanna. Þrír stærstu bankar landsins skiluðu á síðasta ári í hagnað eftir skatta kr. 66.000.000.000. Sex tíu og sex þúsund milljónum! Urðu þeir peningar til í bönkunum, eða duttu þeir kannski af himnum ofan? Ætli það, ætli þeir komi ekki frá skuldurum í formi verðbóta og vaxta. Fjögurra ára hagnaður bankanna dygði til að leiðrétta húsnæðislán landsmanna að mestu.

6. Víst er meira en nóg um lýðskrum í pólitík á Íslandi. En stjórnmálamenn sem lofa að leiðrétta það misrétti sem hér hefur orðið á síðustu árum eru ekki að skruma. Þeir eru að lofa að gera það sem verður að gera, hefði átt að vera búið, og við munum ekki komast hjá að gera. Fyrr verður ekki friður í landinu. Þeir stjórnmálamenn sem hafa látið misréttið viðgangast óáreitt, þeir hafa verið að misfara með pólitískt vald. Ef Lögfræðingurinn á innistæðu í banka, þá getur ekki verið réttmætt að skylda þann sem tók lán hjá sama banka til að greiða verðbætur á innistæðu Lögfræðingsins í hvert skipti sem olía eða kaffi hækkar á heimsmarkaði, eða í hvert skipti sem ríkisstjórn ákveður að hækka skatta. Um þetta erum við lögfræðingurinn þó sammála.

7. „Stjórnmálabarátta á ekki að snúast um kjör á lánasamningum“ segir lögfræðingurinn. En þar sem um lánasamninga gilda lög, þá hlýtur stjórnmálabaráttan að snúast meðal annars um hvað stendur í þeim lögum. Annars væru stjórnmálamenn að bregðast skyldum sínum.

Því betur höfum við Íslendingar til skamms tíma búið við mikið frelsi til að ráða einkamálum okkar sjálf. Við höfum búið við mikinn jöfnuð og litla stéttaskiptingu sem skapað hefur frið og gott samfélag, með því besta sem þekkist í heiminum. Síðustu ár hefur manngert fyrirbæri sem kallað er verðtrygging, í vaxandi mæli heft þetta frelsi, búið til yfirstétt og öreigastétt. Þeir sem neyddir eru til að greiða verðtryggingu auk endurgreiðslu lána með vöxtum, eru ekki lengur frjálsir menn. Þeir eru orðnir þrælar þeirra sem fá verðtrygginguna greidda, fjármagnseigenda sem fljúga frjálsir um víða veröld sem aldrei fyrr. En frelsi fjármagnseigenda fylgir ábyrgð eins og dagur fylgir nóttu.
Stjórnmálaflokkar sem lofa að koma hér aftur á jöfnuði, standa við loforðin og leiðrétta það hróplega misrétti sem hér er orðið, þeir eru ekki lýðskrumarar. Þeir eru að sinna sínum skyldum, þeir eru að vinna fyrir okkur, fyrir hagsmuni heildarinnar. Þeir fá mitt atkvæði.
Gísli Sigurðsson.