Ljótur utanvegaakstur í hlíðum Hverfjalls

0
158

Í vikunni barst landvörðum í Mývatnssveit tilkynning um ljótan utanvegaakstur í hlíðum Hverfjalls (Hverfells). Tveimur bílum var ekið utan vegar og að minnsta kosti annar hefur ekið upp hlíðina þar til hann hefur stöðvast vegna bratta. Þónokkur ummerki eru eftir þennan akstur enda hefur tíð verið einmuna góð og ekkert frost í jörðu. Frá þessu segir á Facebooksíðu friðlýstra svæða í Mývatnssveit í dag.

Áberandi spólför í hlíðum Hverfjalls

Mikilvægt er að afmá förin eins skjótt og hægt er til að lágmarka líkurnar á að aðrir fari að fordæmi þessara ökumanna en einnig til að koma í veg fyrir að vatn renni um förin og grafi þau enn dýpri.

Utanvegaakstur er því miður viðvarandi vandamál hér á landi þrátt fyrir að akstur utan vega sé ólöglegur.

Árvökull vegfarandi kom að þessum ökumönnum og tilkynnti athæfið til landvarða. Málið er nú í vinnslu hjá lögreglu.

Hverfjall er friðlýst náttúruvætti og eitt af kennileitum Mývatnssveitar.

Fyrir einu og hálfu ári síðan var einnig reynt að keyra upp hlíðar Hverfjalls en ekki er vitað hver var að verki í það skiptið.