Ljósleiðaravæðingin – Rúm milljón á hvert heimili í Þingeyjarsveit

0
74

Sveitarfélög hafa í vaxandi mæli látið sig varða mál sem snúa að uppbyggingu fjarskiptaþjónustu innan sveitarfélaganna og í sumum tilvikum stofnað sérstakt fjarskiptafyrirtæki, um lagningu aðgangsnets innan sveitarfélagsins. Meginástæðan fyrir þessari þróun eru þær að forsvarsmenn þessara sveitarfélaga telja að uppbygging fjarskiptanets á viðkomandi svæði hafi ekki gengið nægilega hratt fyrir sig til að mæta síauknum kröfum notenda um aukinn gagnahraða.

Árni Pétur Hilmarsson.
Árni Pétur Hilmarsson

Ástæða þess að fjarskiptafyrirtæki hafa ekki sinnt uppbyggingu á nýjum innviðum fjarskiptakerfa í dreifbýli er fyrst og fremst hár fjárfestingarkostnaður, sem kemur í veg fyrir að fjarskipafyrirtæki geti reiknað sér eðlilega arðsemi af fjárfestingunni. Lagðar eru fram fjarkiptaáætlanir á Alþingi en því miður sér ekki fyrir endann á því að leyst verði úr þeim vanda sem hinar dreifðu byggðir eiga við að etja, þrátt fyrir góðan ásetning stjórnvalda.

 

 

 

 

Af þessum sökum sjáum við í meirihluta sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar ekki aðra lausn en að ráðast sjálf í lagningu ljósleiðara í sveitarfélaginu. Það er trú okkar að bætt fjarskipti sé ein af forsendum fyrir nýsköpun, aukinni atvinnu og bættum lífsgæðum. Ljóst er að um mjög kostnaðarsama framkvæmd er að ræða en við munum gera okkar besta til þess að finna hagkvæmustu lausnina í samvinnu við sérfróða aðila.

Kostir þess að taka inn ljósleiðara eru:

  • Með Ljósleiðaranum færðu hröðustu tengingu sem býðst og verður í boði í fyrirsjáanlegri framtíð.
  • Þú færð meiri hraða en með öðrum tengingum og er sá hraði jafn í báðar áttir.
  • Sjónvarp um Ljósleiðarann býður upp á útsendingar í bestu mögulegu myndgæðum, fjölda sjónvarpsrása, myndleigu,
    útsendingar í háskerpu og hægt er að hafa allt að 7 myndlykla.
  • Þú þarft ekki að vera með loftnet eða símalínu.
  • Útvarpsútsendingar verða eins og best verður á kosið
  • Þér bjóðast þjónustupakkar líkt og öðrum sem eru á ljósleiðara –sjá t.d: > https://365.is/tilbodspakkar (ATH – Net og sími eru ókeypis í sumum pökkunum. Pakkar í boði frá 4.990,- við bæstist svo heimtaugagjald sem er c.a. 2.900,- á mánuði)
  • Þú getur fengið Voip símaþjónusta sem tekur ekkert gjald sé hringt úr heimasíma í heimasíma (Misjafnt milli þjónusuaðila).
  • Þú getur dregið símalínugjaldið (1400 til 1990kr.) frá ljósleiðara heimtaugagjaldinu (2900kr.)

Þegar þetta allt er tekið saman er líklega hægt að setja þetta upp sem sparnað, en fyrst og fremst snýst þetta um aukið frelsi og lífsgæði. Miðað við frumútreikninga þá er verkefnið stórt og kostnaður rétt rúm milljón pr. heimili. Okkar fyrstu áætlanir gera ráð fyrir því að kostnaðarhlutdeild hvers heimilis verði um 250 þúsund, því verður niðurgreiðsla sveitarfélagins og samstarfsaðila umtalsverð.

Ekki er útséð um aðkomu opinbera sjóða að framkvæmdinni. Þau heimili sem ætla sér að koma inn síðar bera mun hærri kostnað. Rétt er að benda á að líftími á ljósleiðaraneti er talinn vera um 30-50 ár og því er fjárfestingin til framtíðar. Reynsla íbúa sem ekki hafa tekið þátt í ljósleiðaravæðingu í öðrum sveitarfélögum, er eftirsjá þar sem eignir þeirra verða þyngri í sölu og í leigu. Af þessum sökum er mikilvægt að þátttaka íbúa í verkefninu verði góð og almenn.

Fyrir hönd fulltrúa A- lista Árni Pétur Hilmarsson.

(Pistill þessi er tekinn úr Hlaupastelpunni sem kemur út á morgun)