Ljósleiðaravæðing Þingeyjarsveitar – Byrjað að virkja notendur í Fnjóskadal í dag

Byrjað að plægja niður stofnlögn í Bárðardal í dag

0
464

Búið er að leggja stofnlögn fyrir ljósleiðara og leggja allar heimtaugar heim á þá bæi í Fnjóskadal, Útkinn og Reykjadal, sem ekki var lagt á í fyrsta áfanga ljósleiðaravæðingar Þingeyjarsveitar sem hófst í fyrra. Í morgun var svo byrjað á að plægja niður stofnlögn fyrir ljósleiðara í Bárðardal. Byrjað var við Svartárkot og verður plægt norður eftir Bárðardal.

Að sögn Gunnars Björns Þórhallssonar framkvæmdastjóra Tengir á Akureyri, sem sér um að leggja ljósleiðarann, verður stofnlögn plægð niður í Laxárdal þegar búið verður að plægja lögnina í Bárðardal og síðan endað á því að leggja stofnlög á bæi í Aðaldal norðan við Tjörn. Vinna við lagningar heimtauga á bæi í Bárðardal, Laxárdal og Aðaldal norðan Tjarnar hefjast síðan í kjölfarið.

Byrjað verður að virkja tengingar á bæjum í Fnjóskadal í dag og svo þegar frá líður á bæjum í Útkinn og Reykjadal. Reikna má með því að tengingar í Bárðardal, Laxárdal og í Aðaldal norðarn Tjarnar, verði ekki virkjaðar fyrri en seint á þessu ári.

Gangi allar áætlanir eftir verða því allir íbúar í dreifbýli Þingeyjarsveitar, sem á annað borð óskuðu eftir ljósleiðaratengingu, komnir með hana um áramót.

Ljósleiðari í Þingeyjarsveit. Búið er að leggja á svæðið sem er merkt með rauðu á myndinni. Svæði sem eru með gulu og græn/bláu verða kláruð í ár. (Smella á myndina til að skoða hana í stærri útgáfu)