Ljósleiðaralagning í Þingeyjarsveit gengur vel – 96% þátttaka íbúa

0
211

Framkvæmdir við ljósleiðaralagninu í Þingeyjarsveit ganga vel og eru þær rúmlega á áætlun, að sögn Gunnars Björns Þórhallssonar framkvæmdastjóra Tengis hf á Akureyri. Búið er að leggja stofnlögnina á næstum allt svæðið sem var áætlað að leggja á í fyrsta áfanga og búið er að leggja heimtaugar heim á 82 bæi af 150. Að sögn Gunnars var þátttaka íbúa í ljósleiðaraverkefninu í Þingeyjarsveit góð, en einungis 6 aðilar af 150 aðilum (heimilum) vildu ekki fá ljósleiðarann inn til sín.

Ljósleiðaralagning í Aðaldal
Ljósleiðaralagning í Aðaldal

Einungis er eftir að plægja stofnlögnina niður á nokkrum bæjum við Staðarbraut í Aðaldal, en búið er að leggja stofnlögnina suður Reykjadal. Búið er að leggja heimtaugar heim á bæi í Fnjóskadal, Ljósavatnsskarði og Kinn og er heimtaugalagning á bæjum í Aðaldal vel á veg komin, sem til stóð að leggja á í fyrsta áfanga. Eftir er að leggja heimtaugar á bæi í Reykjadal og hluta bæja í Aðaldal. Gunnar reiknaði með því að farið yrði í það verk í næstu og þar næstu viku.

 

 

Gunnar sagði að reiknað væri með því að um næstu mánaðarmót yrði hægt að virkja fyrstu notendurna í Fnjóskadal, Ljósavatnsskarði og í Kinn og þeir kæmust þá í langþráð ljósleiðarasamband. Notendur í Aðaldal og Reykjadal ættu að geta tengst ljósleiðaranum fyrir áramót gangi allar áætlanir eftir.

Á myndinni hér fyrir neðan má skoða áætlun um lagningu ljósleiðara í Þingeyjarsveit

Ljósleiðari í Þingeyjarsveit. (smella á til að stækka)
Ljósleiðari í Þingeyjarsveit. (smella á til að stækka)