Litlar líkur taldar á stóru flóði í Skjálfandafljóti

0
194

Sl. fimmtudagskvöld var haldinn íbúafundur í Ljósvetningabúð með lögreglustjóranum á Húsavík, sýslumanni Þingeyinga Svavari Pálssyni, fulltrúum almannavarna, Veðurstofunnar og öðrum hagsmunaaðilum. Sýslumaður Þingeyinga boðaði til fundarins til þess að fara yfir málefni er varða jarðskjálftahrinuna við Bárðarbungu og viðbúnað og viðbrögð vegna hugsanlegs flóðs í Skjálfandafljóti. Fram kom á fundinum að litlar líkur eru taldar á stóru flóði í Skjálfandafljóti.

Oddur Sigurðsson jarðfræðingur og Svavar Pálsson sýslumaður
Oddur Sigurðsson jarðfræðingur og Svavar Pálsson sýslumaður

 

Oddur Sigurðsson jarðfræðingur flutti fróðlegan fyrirlestur um þróun mála síðustu daga í Bárðarbungueldstöðinni en megin inntak fyrirlestursins var um hugsanlegt hlaup í Skjálfandafljóti og þá hve stórt það gæti orðið. Í máli Odds koma fram að þar sem vatnasvið Skjálfandafljóts eigi að mjög litlu leiti upptök sín úr Bárðarbungu sé litlar líkur á stóru hlaupi í því ef eldgos yrði í Bárðarbungu. Mestar líkur eru á hlaupi í Jökulsá á Fjöllum gjósi í Bárðarbungu eða í Dyngjujökli. Fram kom í máli Odds að líkleg stærð mögulegs hlaups í Skjálfandafljóti sé á bilinu 1-3000 rúmmetrar á sek og það muni ekki ógna byggð né mannvirkjum á bökkum þess. Stærstu vorflóð í Skjálfandafljóti sem hafa verið mæld eru í kringum 1000 rúmmetra/sek. Oddur taldi mjög litlar líkur á stærra hlaupi í Skjálfandafljóti, en búið er að vinna líkan af stærra hlaup í Skjálfandafljóti. Hlaup upp á 5-20.000 rúmmetra á sek, sem talið er mjög ólíklegt, myndi þó valda skaða á einhverjum bæjum og brýr og vegir yrðu fyrir skemmdum.

 

 

2010-06-01 01.02.13
Víðir Reynisson frá Almannavörnum

Rennslismælir er í Rjúpnabrekkukvísl, sem rennur úr Bárðarbungu og lætur hann vita strax af því til Veðurstofunnar verði snöggar rennslisbreytingar. Einnig er rennslismælir staðsettur við Adleyjarfoss. Komi hlaup í Skjálfandafljót tekur það hlaupvatnið um 10 klukkutíma að ná til byggða efst í Bárðardal (ármót Svartár) þegar það skemur undan jökli og hátt í 17 klukkutíma að ná til sjávar og því nægur tími til undirbúnings og mögulegrar rýmingar sé um stórt hlaup að ræða.

Í máli sýslumanns Svavars Pálssonar og Kristjáns Kristjánssonar yfirlögregluþjóns á Húsavík kom fram að unnið sé að rýmingaráætlun vegna hugsanlegs hlaups í Skjálfandafljóti í samvinnu við sérfræðinga og lýkur þeirri vinnu á næstu dögum.

Víðir Reynisson frá Almannavörnum, fór stuttlega yfir aðkomu Almannavarna vegna hugsanlegs flóðs í Skjálfandafljóti og einnig samvinnu þeirra við viðbragðsaðila í héraði.

Fundurinn var vel sóttur og komu fram margar fyrirspurnir um hugsanlegt hlaup í Skjálfandafljóti og um það hvað vísindamenn telja líklegt framhald á umbrotunum í Vatnajökli. Oddur sagði vísindamenn búast við hverju sem er og allir möguleikar væru til skoðunar.

Fundinum lauk um kl 22:00 á fimmtudagskvöldinu eða réttum tveimur tímum áður en eldgosið í Holuhrauni hófst, sem stóð yfir í fjóra klukkutíma.

Fundargestir í Ljósvetningabúð
Fundargestir í Ljósvetningabúð