Lengri skólaakstur hefur neikvæð áhrif á líðan yngri nemenda

0
76

Þingeyjarskóli boðaði til sameiginlegs  fundar með  foreldrum grunnskólanemenda í Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla í matsal Hafralækjarskóla í gærkvöld. Umræðuefnið var hvernig tilhögun skólastarfsins í sameinuðum skóla á tveimur starfsstöðvum hefði tekist, frá því að skólinn hóf starfssemi sína í haust. Svör við spurningum eins og  hver er líðan nemenda og eru nemendur sáttir við að ferðast á milli starfsstöðva með lengdum skólaakstri, brunnu nokkuð á foreldrum.

Foreldrar ræða málin.

 

 

Skipað var í sex umræðuhópa þar sem tekin voru fyrir ákveðin umræðuefni.  Niðurstöður úr umræðuhópunum voru síðan kynntar.

 

Foreldrar eldri nemenda töldu börn sín almennt nokkuð sátt við breytt fyrirkomulag á skólanum og voru á því að eldri börnin ættu aðveldara með að aðlaga sig að breyttum aðstæðum.

Foreldrar yngri nemenda af skólasvæði Hafralækjarskóla töluðu um að börn þeirra kvörtuðu nokkuð undan löngum skólaakstri og að sum þeirra kviðu fyrir þeim dögum þegar þeim væri kennt á Laugum þess vegna. Minna bar á því hjá yngri nemendum af skólasvæði Litlulaugaskóla.

Einn af umræðuhópunum

 

 

 

 

 

 

 

Foreldrar voru almennt sammála um að breyta þyrfti tilhögun skólaaksturs til og frá Hafralæk þannig að sá tími sem nemendur þyrftu að sitja í skólabíl styttist. Dæmi voru um að börn þyrftu að sitja í skólabíl upp undir 90 mín, sem allir voru sammála um að væri alltof langur tími. Eins voru margir foreldrar ósáttir við hve skóladagurinn væri langur á þriðjudögum og fimmtudögum, en þá daga er nemendum keyrt á milli starfsstöðvanna.

Foreldrar sögðust ekki hafa orðið mikið vör við að börn þeirra kvörtuðu undan breyttum kennsluháttum og töldu börn sín vera ánægð með að fá góða kennsluaðstöðu fyrir verklegar greinar á Hafralæk og góða aðstöðu til íþróttakennslu á Laugum.  Margir töldu þó að of stuttur tími væri liðinn til þess að geta lagt heilstætt mat á það.

Margir foreldrar óskuðu eftir því að nemendum sem ekki hefðu áhuga á fótbolta í íþróttatímum Eflingar á Laugum hefðu möguleika á því að fá kennslu í einhverju öðru í staðinn. Eins voru foreldrar af skólasvæði Hafralækjarskóla ósáttir við að ekki væri boðið upp á skólaakstur heim eftir eftir Eflingartímanna.

Niðurstöður fundarins verða teknar til skoðunar og leitað leiða til úrbóta á helstu umkvörtunarefnunum.

Til stendur að halda samskonar fund með nemendum og svo líka með starfsfólki skólanna á næstunni.