Reimar Sigurjónsson sauðfjárbóndi á Felli í Bakkafirði hefur áhyggjur á kindum sem ekki var búið að smala á Miðfjarðarheiði í Norður-Þingeyjarsýslu. Hann fór á fjórhjóli í dag upp á Miðfjarðarheiði, Hágangaurð og Staðarheiði til þess að athuga með féð sem hann hafði áhyggjur af. Hann fann 60-70 kindur á svæðinu en gat ekki rekið þær heim á leið því öll vatnsföll eru full af snjó og krapa. Kindurnar komust því hvergi.

Að sögn Reimars eru venjulega 100-200 kindur á þessu svæði og hafði hann miklar áhyggjur af því að einhverjar þeirra hefðu harkist undan óveðrinu um sl. helgi í ár eða læki á svæðinu og drepist. Ekki fann Reimar þó neinar dauðar kindur í dag enda svæðið stórt og hann var einn á ferð. Nokkuð mikill snjór er á heiðunum og samkvæmt veðurspá er ekki nein hlýindi í kortunum næstu daga.
Að sögn Reimars er ekki búið að ákveða hvenær svæðið verður smalað en það þyrfti að gerast sem fyrst, sagði Reimar Sigurjónsson í spjalli við 641.is í kvöld.

