Leikreglur – frelsi

0
78

Vinstri græn berjast gegn því sem kallað hefur verið alræði kapítalismans, þar sem orð og æði viðskiptalífsins hafa þrengt sér inn á nánast öll svið daglegra athafna okkar. Undanfarna tvo áratugi hefur orðræða markaðsaflanna þannig gegnsýrt samfélag okkar. Málsvarar þeirra hafa tekið sér einkarétt á hugtakinu frelsi og hagnýtt í sína þágu. Leikreglur og rammar hafa gleymst og vegna þessa höfum við þurft að takast á við gríðarlega erfiðleika.

Bjarkey Gunnarsdóttir
Bjarkey Gunnarsdóttir

Einfaldar lausnir

Við Vinstri græn berjumst gegn þessu alræði og gerum það sem í okkar valdi stendur til að hugtakið frelsi kveiki í hugum fólks hugmyndir um frelsi til að mennta sig, njóta heilbrigðisþjónustu og eiga sömu tækifæri, í stað þess að vera einvörðungu spyrt við hagsmuni sem bornir eru á markaðstorg. Raunverulegt frelsi okkar fer fyrir lítið þegar stór hluti samfélagslegra eigna, eins og banka, er færður í hendur fárra og gróðinn einkavæddur en tapið ríkisvætt. Það lærðum við af langri valdatíð hægrimanna.

 

 

Enn eru þó bornar fyrir okkur markaðslausnir, þar sem frelsi okkar snýst um frelsi til að ná hagkvæmum vöxtum og meiri tekjur til ráðstöfunnar. Ég velti því fyrir mér hvað kjósendum í kjördæminu þyki um framkomnar tillögur um einfaldar lausnir á vanda þjóðarinnar. Það er ofureinföldun að halda því fram að ein leið henti öllum þegar kemur að því að hjálpa heimilunum í landinu, ofureinföldun sem mun koma niður á velferð og framtíð okkar. Það er alveg ljóst að margs er að gæta í þessum efnum og við þurfum auk þess að gæta aðhalds næstu árin þó betur sé farið að ára.

Velferðarsamfélag

Vinstri græn leggja áherslu á velferðarsamfélag sem byggir á jöfnuði, manngildi og sanngjörnu skattkerfi. Leiðin er sú að þeir sem hæstu launin fá borgi meira til samfélagsins en þeir sem minna hafa, öfugt við það sem áður var þegar auðmenn gátu gengið að því vísu að hægri öflin héldu hlífiskildi yfir þeim.

Í krafti þess að dreifa byrðum sameiginlegrar velferðar okkar hefur núverandi ríkisstjórn, þrátt fyrir erfiða stöðu, komið fram með fjölmörg verkfæri til að aðstoða skuldug heimili, en margt er þó enn eftir. Ekki hefur allt gengið eftir sem Vinstri græn hefðu viljað í þeim málum t.d. lausn á verðtryggingar og verðbólguvanda, sem taka þarf á án loforða um töfralausnir. Slík mál eru þannig vaxin að þau verða ekki leyst með pennastriki eða sögusögnum um að enginn þurfi að borga það sem útaf stendur.

Ég treysti því að þið kjósendur góðir viljið leggja ykkar af mörkum til að halda áfram að byggja samfélag í anda velferðar og jöfnuðar. Baráttan snýst um að viðhalda samfélaginu þannig að okkur takist að verja þau gildi og hugsjónir  sem sameina okkur sem þjóð. Setjum x við V á kjördag.

Bjarkey Gunnarsdóttir

Höfundur skipar 2. sæti framboðslista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi