Leikfélag Húsavíkur sýnir Karíus og Baktus

0
450

Í Samkomuhúsinu á Húsavík hafa nú tveir skrítnir náungar hreiðrað um sig og skemmta sér vel við sælgætisát og holugerð. Þetta eru þeir kumpánar Karíus og Baktus sem margir þekkja af sögusögnum.  Þeir voru skapaðir af Torbirni Egner fyrir margt löngu og eru komnir til Húsavíkur til að skemmta fjölskyldum þar í skamma stund.

Karíus og Baktus

Sigurður Illugason er að reyna að temja þá bræður til liðs við sig og notar til þess allsérkennilegan tannbursta.   Hvort það tekst færð þú að vita þegar þú kemur á sýninguna hjá Leikfélagi Húsavíkur.  Sagt er að Siggi hafi fengið til liðs við sig nokkra krakka þær Bergdísi Jóhannsdóttur, Emilíu Brynjarsdóttur, Friðriku Bóel Jónsdóttir, Kristnýju Ósk Geirsdóttur og Jóhannes Óla Sveinsson.

Það verður forvitnilegt að vita hvað þeim tekst að gera með þeim bræðrum.

Frumsýning er þriðjudaginn 12. maí kl. 18:00 og einungis 8 sýningar í boði svo það er um að gera að vera vakandi og drífa sig í leikhús áður en krílin fara eitthvað annað.