Lausaganga búfjár

0
339

Ég bý í víðfeðmu en fámennu landbúnaðarhéraði. Atvinnulífið er, því miður, ekki fjölbreytt. Þeir sem halda samfélaginu okkar uppi eru þeir einstaklingar sem koma með tekjur utan frá. Þeir sem skaffa útsvarið en lifa ekki á því. Fólk sem vinnur utan sveitarfélagsins eða eru með sjálfstæðan atvinnurekstur innan þess. Bændur eru þar í miklum meirihluta. Búskapur er hryggjarstykkið í samfélaginu okkar. Margar byggðir haldast enn í byggð einmitt vegna búskapar.

Ásta Svavarsdóttir

 

Eftir víðfrægt efnahagsrun er mikið rætt um atvinnuuppbyggingu og nauðsyn þess að efla atvinnulíf. Einhverra hluta vegna er aldrei litið til hinna afleiddu starfa sem verða til við landbúnað. Yfirleitt er bara bölsótast yfir þessum fáu hræðum sem enn harka og litið á þær sem skelfilegar afætur á þjóðfélaginu.

 

 

Landbúnaður skapar fjölda starfa.  Jógúrtin kemur ekki beint frá kúnum, einhver býr hana til, öðrum datt í hug að bragðbæta hana, sá þriðji hannar dósina utan um hana. Þá kemur áleggið ekki heldur í notendavænum umbúðum beint frá býli. Nei, þarna koma að margar hendur og hafa lifibrauð sitt af.

Væri því nær að koma meira til móts við bændur og gera þeim lífið auðveldara en að vera sífellt að auka á þeim kröfur. Nóg er nú samt.

Bann.

Verði slys þar sem lausaganga er ekki bönnuð fær búfjárhaldari bætur fyrir sína gripi. Sé hún bönnuð þarf hann að hafa sérstaka tryggingu. Bændur verða því að gæta þess að kaupa tryggingu ef lausagöngubann verður sett. Sum tryggingarfélög eru með svona tryggingu inni í tryggingarpakkanum en nokkuð ljóst er að allar viðbótatryggingar lækka ekki iðgjaldið.

Nú þegar er dómavenja sú að sé lausagöngubann í Búfjársamþykkt viðkomandi sveitarfélags er búfjárhaldari dæmdur bótaskyldur algjörlega án tillits til  aðstæðna.

Ég er ekki að firra bændur ábyrgð á sínum skepnum. Mér finnst bara eðlilegt að ganga út frá því að fólk sé almennt ábyrgðarfullt og skynsamt og annað heyri til undantekninga. (Sbr. hugmyndin um bonus pater familias í lögfræði.)

Mismunun.

Í 72. gr. Stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands segir:

Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Eignarréttur er afskaplega lítils virði ef nýtingarréttur fylgir ekki með.

Það er skelfileg tilhugsun að eiga stóra afrétt þar sem enginn er og enginn fer og þurfa að kúldrast með skepnurnar heima á túni. Nema einhver góðhjartaður og elskulegur veiti manni ,,undanþágu” til að nýta eignina sína. Hversu margir myndu sætta sig við slíkar kvaðir?

Miklu eðlilegra er að miða við ítölu þegar ákveðið er hversu mikið hver landeigandi má beita.

Matvælaöryggi.

Mikið hefur verið rætt um matvælaöryggi. Sérstaklega af andstæðingum ESB aðildar en það hangir talsvert meira á spýtunni en bara það. Mannkyninu fjölgar með ógnarhraða og telur Christian Anton Smedshaug sem kom hingað til lands í boði Bændasamtakanna það vera skyldu allra þjóða að framleiða eins mikinn mat og mögulegt er.. Ein af leiðunum til þess er að nýta allt það land sem hægt er undir matvælaframleiðslu.

,,Hins vegar ættu öll lönd að einbeita sér að því að framleiða svo mikið korn sem mögulegt er. Það þýðir að mikilvægi aukinnar beitar í úthögum, skógum og á fjöllum eykst.” Bændablaðið 13.01. 2011

Það hlýtur að skjóta skökku við að nú eigi að meina bændum að beita lönd sín.

Dýravernd.

Að lokum vil ég benda á að umræða um dýravernd hefur aukist talsvert og verksmiðjubúskapur gagnrýndur. Við hljótum öll að vilja aðbúnað skepna sem bestan og útivera og möguleiki á hreyfingu hlýtur að vera ein forsenda þess.

Að meina bændum að nýta afréttir sínar á sama tíma og auknar kröfur um útiveru koma fram í samfélaginu stuðlar að meiri útgjöldum og kjaraskerðingu í framhaldinu. Bændur eru nú þegar að kikna undan hækkandi eldsneytis- og áburðarverði. Þá er reglugerðarfarganið orðið yfirgengilegt. Það síðasta sem atvinnulífið vantar er fleiri boð og bönn.

Ásta Svavarsdóttir