Landsvirkjun styður endurskoðun mats á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar

0
75

Að beiðni Landsvirkjunar hefur verkfræðistofan Efla skilað úttekt á núgildandi mati á umhverfisáhrifum fyrir Bjarnarflagsvirkjun. Lokaniðurstaða úttektar Eflu er að ekki eru teljandi breytingar á grunnástandi eða lagaramma sem valda því að endurtaka þurfi mat á umhverfisáhrifum fyrir Bjarnarflagsvirkjun í heild sinni. Umfjöllun um jarðskjálfta sé ekki ítarleg í gildandi mati á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar og vanreifun á jarðskjálftavá gæti því kallað á endurmat umhverfisáhrifa þessa tiltekna þáttar. Frá þessu segir á heimasíðu Landsvirkjunar.

c0903eca85e32969

Umhverfisáhrif verði metin betur

Landsvirkjun hefur markað sér þá stefnu að nýta með sjálfbærum hætti þau jarðhitasvæði sem fyrirtækinu hefur verið trúað fyrir. Með nýrri Bjarnarflagsvirkjun er mikilvægt að tefla ekki lífríki Mývatns í hættu. Landsvirkjun telur því mikilvægt að gæta varúðar við allar framkvæmdir í Bjarnarflagi. Landsvirkjun hefur staðið fyrir ítarlegum umhverfisrannsóknum á efnasamsetningu grunnvatns, náttúrufari, yfirborðsvirkni, jarðskjálftavirkni og loftgæðum í tengslum við rekstur núverandi Bjarnarflagsvirkjunar og vegna undirbúnings nýrrar virkjunar.

Vegna nálægðar Bjarnarflagsvirkjunar við Mývatn og íbúabyggð telur Landsvirkjun mikilvægt að meta betur umhverfisáhrif sem snúa að mögulegum smáskjálftum samfara djúplosun á jarðhitavökva, en þessi þáttur var vanreifaður í fyrra mati. Jafnframt verði metið hvort nauðsynlegt sé að endurskoða vissa þætti varðandi grunnvatn og loftgæði.

Ákvörðun um endurskoðun á mati á umhverfisáhrifum í höndum Skipulagsstofnunar

Mat á umhverfisáhrifum allt að 90 MW virkjunar í Bjarnarflagi liggur fyrir með úrskurði Skipulagsstofnunar í febrúar 2004. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum kemur fram að ef framkvæmdir hefjast ekki innan 10 ára frá úrskurði skal óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi matsskýrslu að hluta eða í heild. Í febrúar 2014 verða 10 ár liðin frá úrskurði Skipulagsstofnunar.

Landsvirkjun mun í samráði við sveitarstjórn Skútustaðahrepps leita sem fyrst álits Skipulagsstofnunar á því hvort þörf sé á að endurskoða mat á umhverfisáhrifum að hluta eða í heild.

Stefnt að varfærinni uppbyggingu með 45 MW virkjun

Bjarnarflagsvirkjun er í nýtingarflokki í rammaáætlun Alþingis um vernd og orkunýtingu landsvæða. Núverandi Bjarnarflagsstöð Landsvirkjunar hefur verið í rekstri frá árinu 1969, eða í yfir 40 ár. Í Bjarnarflagi er ein elsta nýtingarsaga háhitasvæðis á Íslandi og hefur nýting jarðhitavökva á svæðinu í um hálfa öld jafngilt 15-45 MW raforkuframleiðslu.

Landsvirkjun hefur unnið að undirbúningi nýrrar virkjunar í Bjarnarflagi frá árinu 1992 og er útboðshönnun og útboðsgagnagerð fyrir 45 MW virkjun nú á lokastigi. Með hliðsjón af þeirri varfærnu uppbyggingu sem Landsvirkjun stefnir að með 45 MW virkjun í Bjarnarflagi, þeim viðamiklu rannsóknum sem liggja fyrir og áratuga reynslu af jarðhitanýtingu á svæðinu bindur Landsvirkjun vonir við að heimilt verði að halda áfram uppbyggingu á svæðinu þegar ákvörðun Skipulagsstofnunar liggur fyrir og henni hefur verið framfylgt.

Undirbúningsframkvæmdum verður haldið í lágmarki þar til frekari ákvörðun liggur fyrir og samráð við hagsmunaaðila um framhaldið verður aukið.

Mun ekki tefja iðnaðaruppbyggingu á Norðausturlandi

Endurskoðun á mati á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar ef til hennar kæmi myndi ekki tefja fyrstu skref iðnaðaruppbyggingar á Norðausturlandi. Á svæðinu eru tveir virkjanakostir Landsvirkjunar í nýtingarflokki, Bjarnarflagsvirkjun og Þeistareykjavirkjun, og eru undirbúningsframkvæmdir á lokastigi á báðum stöðum. Jafnframt mætti nýta tiltæka orku Landsvirkjunar af öðrum vinnslusvæðum en slíkt er háð styrkingu orkuflutningskerfisins.

Skýrslu Eflu má sækja hér

Nánari upplýsingar um Bjarnarflagsvirkjun, og ítarlegar rannsóknarskýrslur