Landssamtök sauðfjárbænda – Glórulaus ákvörðun Norðlenska

0
175

Landssamtök sauðfjárbænda harma harkalega ákvörðun afurðasölufyrirtækisins Norðlenska um einhliða verðlækkun til bænda og óttast afleiðingar hennar fyrir sveitir landsins. 38% lækkun fyrir kjöt af fullorðnu sauðfé og 10% lækkun á lambakjöti er gersamlega glórulaus á meðan innanlandssala eykst, vextir fara lækkandi, efnahagshorfur eru góðar og heimsmarkaðsverð á lambakjöti er á uppleið. Frá þessu segir í fréttatilkynningu.

LS

Launahækkunum velt yfir á bændur

Fyrir þessa lækkun hafði verð á sláturfé til bænda lækkað að raungildi um 5,6% á þremur árum og þyrfti að hækka um 5,9% til að halda í við verðlagsþróun. Norðlenska tiltekur nokkrar ástæður fyrir þeirri ákvörðun sinni að ganga enn harðar fram gegn bændum:

 

  • Miklar launahækkanir
  • Heildsöluverð stendur í stað
  • Slæmar horfur á útflutningsmörkuðum
  • Styrking á gengi krónunnar og háir vextir

Launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 24,1% frá janúar 2014 til júní 2016. Ef eingöngu er litið til síðustu 12 mánaða hækkaði launavísitalan um 12,5%. Laun hafa þannig vissulega hækkað að undanförnu á sama tíma og raunverð til sauðfjárbænda hefur lækkað. Rökstuðningur Norðlenska sýnir að fyrirtækið ætlar sér blygðunarlaust að velta verð- og launahækkunum yfir á bændur.

Hagsmunum bænda kastað fyrir róða

Smásöluverð á lambakjöti hækkaði aðeins um 41,4% frá ársbyrjun 2007 fram á mitt þetta ár en almenn hækkun á mat og drykkjarvörum var 65,9% á sama tímabili samkvæmt Hagstofu Íslands. Afurðaverð til íslenskra bænda er að auki með því lægsta sem þekkist í Evrópu og meginhluti af endanlegu útsöluverði rennur í vasa milliliða. Norðlenska teflir því fram í rökstuðningi sínum fyrir lækkun til bænda nú að heildsöluverð hafi ekki hækkað í takti við launaskrið síðustu ára. Landssamtök sauðfjárbænda rengja þá fullyrðingu ekki. Þau gera sér líka grein fyrir því að afurðasölufyrirtækin þurfa að kljást við fákeppnis-dagvörumarkað sem skilar margfaldri arðsemi miðað við önnur lönd. Samtökin telja hins vegar óboðlegt að afurðarstöðvar í eigu bænda leggi árar í bát og bregðist við stöðunni með því að kasta hagsmunum bænda fyrir róða.

Bændur blæða fyrir spádóma

Allt bendir til þess að þjóðarrétturinn lambakjöt sé í sókn, sala innanlands er góð og sala til veitingastaða á uppleið. Öflugt markaðsstarf, aukinn ferðamannastraumur og vakning hjá íslenskum neytendum um gæði og hollustu íslenska lambakjötsins skipta þar sköpum. Á sama tíma hefur heimsmarkaðsverð á frosnu lambakjöti verið á uppleið og hækkað um 12,6% frá áramótum samkvæmt tölfræðigögnum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Norðlenska tiltekur í rökstuðningi sínum að horfur séu slæmar á útflutningsmörkuðum. Landssamtök sauðfjárbænda rengja ekki þetta mat fyrirtækisins, þótt það sé á skjön við alþjóðlegar hagtölur. Samtökin átelja hins vegar harðlega að verð til bænda sé lækkað á grundvelli þessara spádóma fyrirtækisins.

Sveitirnar að veði

Í nýjasta hefti Peningamála Seðlabanka Íslands kemur fram að þrátt fyrir sterkt gengi séu efnahagshorfur betri en áður var spáð og líkur á hagvexti í helstu viðskiptalöndum. Bankinn tilkynnti í morgun um fyrstu vaxtalækkun sína í tvö ár. Rökstuðningur Norðlenska fyrir lækkun á afurðaverði til sauðfjárbænda í ljósi efnahagsaðstæðna og vaxtastigs hljómar einkennilega í ljósi þessa nýjasta útspils Seðlabankans. Landssamtök sauðfjárbænda óttast að ákvörðun fyrirtækisins um afurðaverðslækkun nú geti haft neikvæð áhrif á greinina alla. Samtökin hvetja stjórn fyrirtækisins og stjórnendur til að endurskoða hana áður en óafturkræf áhrif hennar koma fram í íslenskri sauðfjárrækt og sveitum landsins.

Sjá nánar á vefnum sauðfé.is