Landsnet og PCC semja á ný um orkuflutning vegna kísilvers á Bakka

0
259

Landsnet hefur undirritað nýtt samkomulag um raforkuflutninga við PCC vegna kísilvers á Bakka við Húsavík. Þar koma fram ítarlegri skýringar á samkomulagi fyrirtækjanna, samkvæmt leiðbeiningum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), en voru í fyrri samningi félaganna. Jafnframt hefur nýi samningurinn verið sendur ESA til samþykktar.

Dietmar Kessler, fulltrúi framkvæmdastjórnar PCC, Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets og Peter Wenzel, aðstoðarforstjóri þróunarsviðs PCC
Dietmar Kessler, fulltrúi framkvæmdastjórnar PCC, Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets og Peter Wenzel, aðstoðarforstjóri þróunarsviðs PCC

 

„Það er von okkar að með þessum nýja samningi, sem er efnislega á svipuðum nótum og fyrri samningur félaganna en inniheldur ítarlegri skýringar samkvæmt leiðbeiningum ESA, komist verkefnið aftur á skrið,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnes. Undirbúningur vegna verkefnisins fer nú aftur af stað hjá Landsneti og framkvæmdir geta hafist um leið og öllum fyrirvörum hefur verið aflétt, þar á meðal um samþykki ESA.

 

Samkvæmt samkomulaginu skal Landsnet tryggja orkuflutning til kísilvers PCC frá meginflutningskerfinu og þeim framleiðslueiningum sem munu tryggja verkefninu raforku. Miðað er við að orkuafhending hefjist í nóvember 2017, komi ekkert óvænt upp á.

Áætluð aflþörf fyrsta áfanga verksmiðunnar er 52 megavött (MW) og framleiðslugetan er fyrirhuguð 32-40 þúsund tonn af kísilmálmi á ári, með möguleika á stækkun upp í allt að 80 þúsund tonna árlega framleiðslu. Þá er gert ráð fyrir að kísilverið skapi um 125 framtíðarstörf á svæðinu, að ótöldum þeim störfum sem verða til vegna kaupa á þjónustu og fleiru.

Heildarkostnaður vegna tengingar iðnaðarsvæðisins og Þeistareykjavirkjunar er metinn á tæplega fimm milljarða króna. Fréttatilkynning.