Landsamtök Sauðfjárbænda vilja flýta slátrun til að koma í veg fyrir skort á lambahryggjum

Fyrstu innlendu hryggirnar verða komnir í búðir í þar næstu viku

0
206

Um mánaðarmót júní-júlí höfðu verið flutt inn til Íslands 12 tonn af erlendum lambahryggjum á árinu samkvæmt upplýsingum um vöruviðskipti við útlönd hjá Hagstofu Íslands. Eflaust hefur meira magn komið inn í landið í júlí en ekki liggja fyrir gögn um það ennþá. Frá þessu segir á vef samtakanna í dag.

Meirihluti þessara hryggja kemur frá Nýja-Sjálandi. Frá Wellington sem er höfuðborg Nýja-Sjálands til Reykjavíkur eru 17.244 km í beinni loftlínu. Þessir hryggir voru fluttir inn með samningsbundnum tollum Íslands við erlend ríki og eru nú til dreifingar í íslenskum verslunum og kannski líka í mötuneytum og á veitingastöðum.

Samkvæmt Andrési Magnússyni, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu í Morgunblaðinu í dag eru tugir tonna af lambahryggjum í viðbót á leiðinni til landsins og gætu verið komnir í verslanir í næstu viku. Það geta þeir hvort sem þeir eru fluttir inn á lækkuðum tolli eða ekki enda innflutningur á frosnu lambakjöti heimill hvenær sem er ársins.

Mynd tekin úr kjötborði Íslenskrar verslunar í fyrra dag. Tveggja ára gamlir lambahryggir frjá Nýja-Sjálandi. Mynd af sauðfé.is

Kappið snýst nefnilega ekki um að uppfylla skort á markaði því innlendir sláturleyfishafar eru flestir ennþá að afgreiða frá sér innlenda hryggi eða hryggjavöru og eiga í birgðum nóg til að anna sínum samningsbundnu viðskiptavinum. Kappið hjá Samtökum verslunar og þjónustu og Félagi atvinnurekenda snýst um að gera áhlaup á eðlilega verðmyndun á íslenskum markaði allt næsta ár með því að flytja inn mikið magn hryggja með undanþágu frá alþjóðlegum tollasamningum Íslands. Það er tvennt ólíkt.

Ný framleiðsla ágústmánaðar af hryggjum og hryggjavöru verður að minnsta kosti 25-30 tonn í þeim slátrunum sem þegar er búið að staðfesta og annar það væntanlega um þriðjungi eftirspurnar mánaðarins. Landssamtök sauðfjárbænda hafa hvatt sláturleyfishafa til að flýta slátrun og eru fleiri sláturleyfishafar að skoða að hefja slátrun fyrr í ágúst.  Ef það gengur eftir verður framleiðslan enn meiri.  Núna er staðfest að fyrstu hryggir af framleiðslu ársins 2019 verða til í þar næstu viku á Hvammstanga.  Það er í 150 km fjarlægð frá Reykjavík. Það mun ekki standa á sauðfjárbændum að koma með lömb til slátrunar því okkur þykir vænt um okkar góða samband við neytendur hér á landi.

Vonandi verða upprunamerkingar erlendu hryggjanna komi til meiri innflutnings alls staðar jafn góðar og á hryggjunum sem við fengum sendar myndir af úr íslenskri verslun fyrr í vikunni. Við hvetjum neytendur til þess að óska eftir upplýsingum um uppruna ef vara er ómerkt og spyrja á veitingahúsum og í mötuneytum. Neytendur, bæði innlendir neytendur og ferðamenn, á Íslandi vilja velja íslenska vöru.

Veljum íslenskt!

Sauðfé.is