Lamb finnst á lífi eftir mánuð í fönn

0
138

Jón Ferdinand Sigurðsson frá Draflastöðum í Fnjóskadal fann í gær, lamb á lífi eftir mánaðarvist í fönn í fjallinu, nokkuð norðan og ofan við Draflastaði, nánar tiltekið fyrir ofan eyðibýlið Mela í Fnjóskadal. Ótrúlegt þykir að lambið hafið lifað af í heilan mánuð grafið í fönn, því eins og menn muna skall óveðrið á 10. september sl. Lambið á móti, var á sama stað en það var dautt, enda lá það í læk sem er á þessum stað og varð það hinu lambinu til lífs að það gat staðið ofan á því dauða og blotnaði því ekki.

Jón Ferdinand Sigurðsson með lambið á hlaðinu á Draflastöðum síðdegis í gær. Mynd: Helga Jóhannsdóttir.

Að sögn Jóns var það tilviljun ein að hann fann lambið. Hann fór á fjórhjólinu sínu slóða sem liggur ofan skóga norðan við Draflastaði til að hyggja eftir fé og ákvað að leita af sér allan grun á stað sem greinilega höfðu verði kindur á.

 

Þegar Jón kom á staðinn rak lambið hausinn upp í gegnum lítið op sem bráðnað hafði úr snjónum og kippti Jón því þá upp.

Lambið var mjög sprækt eftir þessa löngu vist í fönn og varð Jón að binda það fast á fjórhjólið svo að það hlypi ekki eitthvað út í buskann.

Líklega varð það lambinu til lífs að nokkur gróður var á þeim stað sem það fennti, bæði berjalyng og gras. Auk þess gat það drukkið nægju sína af vatni.

Lambið dvelur nú á Draflastöðum ásamt heimafé en það er frá  bænum Áshóli í Höfðahverfi.