Lamb finnst á lífi eftir 40 daga í fönn

0
174

Lambhrútur frá bænum Litlu-Reykjum í Reykjahverfi fannst á lífi í dag eftir 40 daga vist í fönn. það var Tryggvi Óskarsson bóndi á Þverá í Reykjahverfi sem fann hrútinn í heiðinni austur af Litlu-Reykjum, skammt frá svo kölluðu Reykjagreni. Tryggvi og fleiri bændur hafa leitað flesta daga á heiðunum austur af Reykjahverfi og var margbúið að fara um svæðið sem hrúturinn fannst á í dag.

Hrúturinn komin heim í fjárhúsin á Litlu-Reykjum.
Mynd: Esther Björk Tryggvadóttir

Esther Björk Tryggvadóttir bóndi á Litlu-Reykjum sagði í samtali við 641.is að lambhrúturinn sem fannst í dag hefði eðlilega verði mjög horaður, en hann hafði farið í fönn undir barði ásamt móður sinni, sem fannst dauð við hlið hans.

Hrúturinn fékk strax vatn og hey þegar í fjárhúsin var komið og drakk hann vel af vatninu en var lítið farinn að éta af heyi að sögn Esther.

Að sögn Esther óttast bændur að nokkuð sé enn af lifandi fé grafið í fönn sem mjög erfitt verður að finna.

Á Litlu-Reykjum eru rúmlega 300 kindur og sakna bændur þar rúmlega 40 kinda, sem eru líklega grafnar í fönn einhversstaðar.