Málþing hestamannafélaganna

0
142

Hestamannafélagið Grani bauð félagsmönnum sínum, félagsmönnum Feykis og félagsmönnum Þjálfa, til málþings um samstarf sem fram fór í Bústólpahöllinni í gær, laugardag. Tilgangur málþingsins var að skoða hvort eitthvað í félagsstarfi þessara þriggja hestamannafélaganna ætti samleið og geti verið öllum til styrks og ánægju.

Bústólpahöllin
Bústólpahöllin

 

Vel var mætt til þingsins og var samstaða um að auka samvinnu félaganna þriggja. Hlutafélagið Gráni ehf. sem hestamannafélögin Grani og Þjálfi eiga til helminga, á Bústólpahöllina. Niðurstaða málþingsins var sú að skipuð yrði nefnd með aðilum úr öllum 3 félögunum og þeir fyndu viðburði sem hægt væri að gera sameiginlega, á öllum félagssvæðum.

 

 

 

Hugleiðingar formanns stjórnar Grána ehf. má lesa hér fyrir neðan

Þegar ársreikningur stjórnar Grána ehf. lá fyrir í vor og ný stjórn tók við, biðu hennar krefjandi verkefni. Við þurftum að finna leiðir til að greiða af láni uppá 1,7 milljónir og fjárafla fyrir skuldum. Félagið sjálft ætti fyrir þeim ef við myndum selja reiðhöllina, en það viljum við auðvitað alls ekki. Verkefnið er að laga reksturinn og passa að hann sé ekki fjársveltur. Grani fjáraflaði og lánaði Grána ehf. afraksturinn svo að hann stendur ekki illa í dag.
Þó eru blikur á lofti því betur má ef duga skal til framtíðar og er yfirlýst stefna Grána ehf. að vera áfram öflugur í að vera sjálfbær að því marki sem hægt er og að gera rekstrarsamning við Norðurþing sem dekkar mismun á innkomu og þörf í rekstur svo hann sé ekki rekinn með tapi til framtíðar.

Höllin er gríðarlega mikilvæg sem æfingasvæði hestafólks, uppeldistæki ungra tilvonandi hestamanna og annara ungmenna sem njóta þess að umgangast og læra á hest. Hún er stórkostlegt íþróttamannvirki allra hestamanna sem að henni standa.

Því höfum við ákveðið í stjórn Grána ehf að boða til hluthafafundar og lagt fyrir þá tillögu að fá að auka hlutafé í félaginu.
Ef það verður samþykkt af stjórnum beggja félaga, en þær fara með vald hluthafa, þá eru tvær leiðir færar. Annars vegar kemur Þjálfi með jafnt hlutafé inn á móti Grana ,heldur eignahlut sínum og bæði félögin leita eftir aðstoð hjá sínum sveitarfélögum og vinna samstiga að bættri rekstrarstöðu. Hins vegar ef Þjálfi vill ekki auka sitt þá breytast lánin frá Grana í aukið hlutafé í Grána ehf. og Grani eignast x meirihluta í Grána ehf.

Ef hlutafjáraukning verður ekki samþykkt jafngildir það pattstöðu sem lamar félagið og mun draga það í hugsanlegt þrot.
Við Granafélagar höfum bæði vilja og getu til að til að stýra rekstrinum í gott horf og vonum að hinir hluthafarnir beri hag reiðhallar og hestamanna fyrir brjósti og forsvarsmenn Norðurþings verði jákvæðir í samstarf ef höllin verður í meirihlutaeigu Grana.
Ég óska eftir velvilja og samstöðu allra hestamanna sem og bæjarstjórnarfólks í þessu máli.

Lilja Hrund Harðardóttir.