
Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands (SGS) afhenti Samtökum atvinnulífsins í gær kröfugerð sína vegna komandi kjarasamninga. Kröfurnar mótuðust á fundum í verkalýðsfélögum og á vinnustöðum um land allt og með hliðsjón af niðurstöðu viðhorfskannana.
Þær urðu þannig til í víðtæku, lýðræðislegu ferli í verkalýðshreyfingunni þar sem öllum félagsmönnum gafst kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hafa áhrif.
Meginkröfur Starfsgreinasambandsins eru þær að
- miða krónutöluhækkanir á laun við að lægsti taxti verði 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára og sérstaklega verði horft til gjaldeyrisskapandi atvinnugreina við launahækkanir.
- endurskoða launatöflur þannig að starfsreynsla og menntun séu metin til hærri launa.
- desember- og orlofsuppbætur hækki.
- vaktaálag verði endurskoðað og samræmt kjarasamningum á opinberum vinnumarkaði.
- lágmarksbónus verði tryggður í fiskvinnslu.
- skilgreind verði ný starfsheiti í launatöflu.
Gerðir hafa verið kjarasamningar við einstaka starfsstéttir undanfarnar vikur og mánuði, sem hljóta almennt að vísa launafólki veginn. Samhljómur er meðal aðildarfélaga SGS um að sú launastefna, sem hefur mótast í samfélaginu, endurspeglist í kjarasamningum SGS við Samtök atvinnulífsins.
Grundvallaratriði er að fólk lifi af dagvinnulaunum í stað þess að ganga sér til húðar í yfirvinnu, aukavinnu og akkorði til að framfleyta sér og sínum.
Langur vinnudagur og mikið álag dregur úr framleiðni og eykur samfélagslegan kostnað. Þá á launafólk að njóta þess í launum þegar það öðlast meiri færni í starfi með reynslu og menntun.
Fréttatilkynning