Kynningarfundur um veiðirannsóknir og áform um virkjunarframkvæmdir í Skjálfandafljóti auglýstur á undarlegan hátt

0
80

Kynningarfundur um veiðirannsóknir í Skjálfandafljóti og áform um virkjunarframkvæmdir ofan Bárðardals verður haldinn í Ljósvetningabúð þriðjudaginn 8. mars 2016, kl. 11:00. Á fundinum á að kynna skýrslu Veiðimálastofnunar um fiskirannsóknir í Skjálfandafljóti og möguleg virkjanaáform. Hrafnabjargavirkjun hf og Landsvirkjun eru skrifuð fyrir auglýsingunni sem birtist í 8. tölublaði Hlaupastelpunnar sl. fimmtudag.

Aldeyjarfoss myndband
Aldeyjarfoss

 

Það er þrennt í auglýsingunni sem vekur athygli. Eitt er það að fundurinn er auglýstur þannig að hann sé fyrst og fremst ætlaður félagsmönnum veiðifélaga við Skjálfandafljót og sveitarstjórnarmönnum í Þingeyjarsveit. Þó er tekið fram að aðrir íbúar Þingeyjarsveitar séu einnig velkomnir á fundinn.

 

Annað er það að ekki er að sjá á auglýsingunni að fundurinn sé á vegum veiðifélaganna við Skjálfandafljót heldur sé hann á vegum Landsvirkjunar og Hrafnabjargarvirkjunar hf.

Þriðja atriðið í auglýsingunni sem vekur athygli er að þess er óskað, að þeir sem hyggjast sækja fundinn tilkynni komu sína fyrir 7. mars. Það er þó tekið fram að það sé ekki skilyrði.

641.is hafði sambandi við Franz Árnason framkvæmdastjóra Hrafnabjargavirkjunar hf. til að spyrjast fyrir um þetta orðalag í auglýsingunni og í svari hans kemur eftirfarandi fram:

Það hefði mátt leggja meiri áherslu á að fyrst og fremst er verið að kynna skýrslu Veiðimálastofnunar “Fiskirannsóknir í Skjálfandafljóti 2015 og möguleg áhrif virkjana” þess vegna er sérstök áhersla á landeigendur við Skjálfandafljót. Það þótti hinsvegar rétt að kynna þessum aðilum og öðrum þeim sem fundinn kunna að sækja virkjanaáformin í leiðinni. Ósk um að menn skrái sig fyrirfram ætli þeir að sækja fundinn er fyrst og fremst til að gera skipuleggjendum auðveldara fyrir varðandi kaffiveitingar. Skráning er hinsvegar ekki skilyrði engum verður vísað frá.

Fundurinn er auglýstur með eftirfarandi hætti í Hlaupastelpunni:

 

KYNNINGARFUNDUR
Kynningarfundur um veiðirannsóknir í Skjálfandafljóti og áform um virkjunarframkvæmdir ofan Bárðardals verður haldinn í Ljósvetningabúð þriðjudaginn 8. mars 2016, kl. 11:00. Fundurinn er fyrst og fremst ætlaður félagsmönnum veiðifélaga við Skjálfandafljót og sveitarstjórnarmönnum í Þingeyjarsveit. Aðrir íbúar Þingeyjarsveitar eru einnig velkomnir á fundinn. Kynnt verður skýrsla Veiðimálastofnunar og virkjanaáform.

Dagskrá
Kl. 11:00 – 11:40. Áform um virkjanir í Skjálfandafljót ofan Bárðardals. Kynninguna annast Helgi Jóhannesson verkefnastjóri Landsvirkjunar. Franz Árnason framkvæmdastjóri Hrafnabjargavirkjunar hf. segir í stuttu máli frá fyrirtækinu og samstarfi þess við Landsvirkjun. Frummælendur svara fyrirspurnum að kynningu lokinni.

Kl. 11:40- 12:40. Skýrsla Veiðimálastofnunar, Fiskirannsóknir í Skjálfandafljóti 2015 og möguleg áhrif virkjana.
Kynninguna annast Guðni Guðbergsson og Benóný Jónsson fiskifræðingar hjá Veiðimálastofnun. Frummælendur svara fyrirspurnum að kynningu lokinni.

Þess er óskað, en ekki skilyrði, að þeir sem hyggjast sækja fundinn tilkynni komu sína fyrir 7. mars á netangið franz@nett.is eða í síma 8944325.
Hrafnabjargavirkjun hf
Landsvirkjun