Undanfarin sumur hefur Kvenfélag Ljósvetninga skipulagt kvöldgöngur. Þessar kvöldgöngur eru frekar léttar og ættu að hæfa flestum og er aðalmarkmiðið að fara í hressandi göngu um sitt nánasta umhverfi, fræðast eitthvað í leiðinni, ásamt því að vera í góðum félagsskap. Allir eru alltaf velkomnir með. Allar göngurnar eru á þriðjudagskvöldum og hefjast oftast kl. 20:15. Á vef Þingeyjarsveitar er viðburðardagatal og eru göngur sumarsins merktar þar inn.
Þriðjudagskvöldið 25. júní var gengið upp að Níphólstjörn sem er ofanvið Stórutjarnir, og gangan hófst þar. Fallegt veður var og hlýtt. Þegar komið var upp að Níphólstjörninni synti þar álftapar í rólegheitum, sjá mátti silunginn stökkva, fuglarnir sungu og köngulærnar unnu að vef sínum. Helen Jónsdóttir einn göngugarpa, sem er mikil berjatínslukona tók strax eftir að mikið er af sætukoppum, sem eiga vonandi eftir að dafna vel í sumar og gefa góða berjasprettu, þegar líður á sumarið.



